Ferðasaga 10. bekkjar vorið 2011

Þriðjudaginn 31. maí eftir síðasta prófið úr grunnskóla lögðum við af stað fjórir fararstjórar með 52 krakka úr 10. bekk. Leiðin lá í Skagafjörðinn.


Skotæfingar:
Á Sauðárkróki fengum við pizzu, þaðan fórum við svo á skotvöllinn. Þar var hópnum skipt í fimm hópa þar sem m.a. var skotið af boga og riffli. Þarna fengum við mjög gott veður og sáum sólina setjast. Við vorum komin í Varmárhlíðaskóla um miðnætti.


„Good morning“ Skagafjörður!
Það var ,,rokið“ á fætur kl. 08:00. Við mættum í góðan morgunmat sem við fengum í skólanum. Dagurinn byrjaði á hestbaki, svo fórum við í klettasig úti á Hegranesi en þar hittum við Selfyssinginn Tryggva Pálsson. Hann er yfir unglingadeildinni í Björgunarsveitinni á Selfossi. Í klettasiginu reyndi mikið á hugrekki og adrenalínið var mjög hátt hjá mörgum. Það er skoðun mín að ég hef ekki hitt þolinmóðari menn á ævinni (fyrir utan kennara) en þá í björgunarsveitinni.
  Síðan var farið í sund og sútunarverksmiðja skoðuð. Um kvöldið fórum við í litabolta. Við vorum komin í hús rétt fyrir miðnætti enn á ný. Þarna héldum við að allir væru þreyttir og myndu sofa vært en þá tók við gítarspil, söngur og spjall fram eftir nóttu.


2.06.2011
Kl.08:00 var farið í að ræsa mannskapinn því að það þurfti að taka sig til í flúðasiglingu og vera svo tilbúin með allan farangur í forstofu skólans til að geta lagt sem fyrst af stað heim. Þetta gekk allt mjög vel og við fengum morgunmat á Hótel Varmahlíð.
  Á leiðinni niður Vestari-Jökulsá var stoppað og farið úr bátunum því að meðfram ánni rann sjóðheit vatnsuppspretta og var vatnið sótt þangað og Sviss Miss sett út í. Allir skemmtu sér mjög vel á þessum áningarstað. Síðan var snæddur hamborgi í KS en svo var farið upp í rútu og ekið heim á leið.

Vel skipulögð ferð
Þetta var mjög skemmtileg ferð og krakkarnir voru til fyrirmyndar. Það er ástæða til að taka fram að mikil skipulagning er að baki svona ferð og foreldratenglar eiga heiður skilinn fyrir sitt framlag. Þeir skipulögðu fjáraflanir og ýmislegt fleira. Og svo er auðvitað mjög gott að allir foreldrar tóku vel undir framtakið.


Fyrir hönd fararstjóra,
Linda Björg Perludóttir.

Hægt er að sjá myndir úr ferðinni hér á síðunni í albúmi undir ,,Myndefni“.