Sérkennsla

Sérkennsla við Vallaskóla fer fram í námsverum skólans, inni í almennum bekkjardeildum og í list- og verkgreinastofum.

Sérkennsla felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á.

Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans.

Sérkennsla einstakra nemenda eða nemendahópa fer fram innan eða utan almennra bekkjardeilda.

Nemendur, sem eiga við námsörðugleika að stríða, fá ákveðin námstilboð í sérkennslu innan þeirra marka sem sérstök tímaúthlutun þessarar kennslu leyfir. Námstilboð þessi geta eftir aðstæðum verið fólgin í styttri eða lengri afmörkuðum námskeiðum eða reglulegri kennslu allan veturinn.

Markmið kennslunnar/stuðningsins er:

  • að veita nemendum námstilboð sem hæfir getu þeirra og þroska,
  • að sinna nemendum vel í upphafi skólagöngu í forvarnarskyni,
  • að styðja nemendur í að fylgja námsefni bekkjarins.

Mikill þroskamunur getur verið á einstaklingum innan hvers árgangs og einnig verulegur munur á einstökum þroskaþáttum hvers barns.

Reynt er að koma til móts við þennan þroskamun ýmist með sérkennslu í litlum hópum, einstaklingskennslu eða aðstoð inni í bekk.

Leitast er við að styrkja sjálfsmynd nemandans með því að leggja áherslu á sterkar hliðar hans en jafnframt að efla þær veiku á jákvæðan hátt.

Einstaklingsnámskrá er gerð fyrir þá sem víkja verulega frá jafnöldrum í námi og fá annað námsefni. Að gerð einstaklingsnámsskrár koma alla jafna sérkennari, umsjónarkennari og foreldrar. Nemendur sem þess þurfa, að mati sérkennara/umsjónarkennara, fá prófaaðstoð.