Vallaskóli

logobeststaerstamedeinkunnaordum

Sólvöllum 2 | 800 Selfoss
 480 5800
 vallaskoli@vallaskoli.is

Skólastjóri: Páll Sveinsson | pall@vallaskoli.is
Aðstoðarskólastjóri: Þorvaldur Halldór Gunnarsson |  thorvaldur@vallaskoli.is

Vallaskóli varð til 1. ágúst 2002 við sameiningu skólanna tveggja á Selfossi, Sólvallaskóla og Sandvíkurskóla. Skólinn er því nýr skóli á gömlum grunni.

Rætur skólans má rekja til skólahalds í Sandvíkurhreppi sem hófst 1907 og var í formi farkennslu.

Starfsstöðvar skólans eru frá og með skólaárinu 2011-2012 á Sólvöllum við Sólvelli 2 og í Valhöll við hlið Sólvalla. Við sameiningu skólanna á árinu 2002 var einnig kennt í Sandvík en þar fór lengi vel fram kennsla í 1.-4. bekk en 5.-10. bekk var kennt á Sólvöllum. Nú er 3.-10. bekk kennt á Sólvöllum en 1.-2. bekk í Valhöll.

Saga Sandvíkursskóla

Selfoss er ungur bær en skólahald hér byggir á gömlum grunni sem á sér upphaf í Sandvíkurhreppi. Þéttbýlið fór í raun og veru ekki að byggjast hér fyrr en um 1930 þegar Mjólkurbú Flóamanna og Kaupfélag Árnesinga hófu starfsemi sína.

Skólahald hófst í Sandvíkurhreppi samkvæmt fræðslulögum frá 1907 þar sem sveitastjórnum var gert skylt að sjá um kennslu barna. Í fyrstu var þetta farkennsla sem fram fór á þremur bæjum í sveitinni, Litlu-Sandvík, Hreiðurborg og Votmúla. Kennsla átti að standa í 24 vikur en sum árin var hún ekki nema í 12 vikur.

Haustið 1929 var fyrst kennt á Selfossi og þá í Tryggvaskála. Kennari var Arinbjörn Sigurgeirsson frá Austurbænum á Selfossi.

Fyrsta barnaskólahúsið var reist niður við Ölfusá við Sigtún. Það hús var síðar nýtt fyrir Iðnskólann og nú hin síðari ár hefur Leikfélag Selfoss haft þar aðsetur. Bygging hússins hófst í október 1932. Húsið var 8×12 álnir að stærð og var tekið í notkun nokkrum mánuðum síðar. Þetta hús dugði næstu 12 árin en þá var það orðið of lítið.

Vorið 1944 var hafin bygging þess húss sem er að stofni til hús Sandvíkurskóla. Húsið var 280 fermetrar, á jarðhæð voru 2 skólastofur um 37 fermetrar hvor, skrifstofa skólastjóra og kennarastofa. Í kjallara var handavinnustofa og snyrting. Austast í byggingunni var leikfimisalur og bað. Þetta er nú svæði heimilisfræðslu, bókasafns, tölvustofu og samkomusalar/leikfimisalar.

Árið 1947 varð Selfoss sérstakt sveitarfélag, byggðin hafði þróast á svæði sem að mestu tilheyrði Sandvíkurhreppi en til austurs teygði hún sig inn á svæði Hraungerðishrepps. Árið eftir (1948) sendi skólanefnd Selfoss erindi til hreppsnefnda Selfoss og Sandvíkurhrepps varðandi nauðsyn þess að stækka skólahúsnæðið. Stóð þóf um þessar framkvæmdir og stærð hússins um nokkurt skeið og þurfti skólinn að nýta hið fyrra hús við Sigtún til viðbótar í nokkra vetur. En ný viðbygging (vesturálman) var tekin í notkun haustið 1953. Þessi bygging var 280 fermetrar á tveimur hæðum og fengust þar 6 kennslustofur. Þá voru nemendur Barnaskólans 210 en Miðskólans 72 (Miðskólinn var 1. 2. og 3. bekkur unglingastigs).

Haustið 1933, þegar ákveðið var að farskólinn í Sandvíkurhreppi yrði fastur skóli, var ráðinn til skólans Sigurður Eyjólfsson frá Stokkseyri. Hann varð fyrsti skólastjóri Barnaskóla Selfoss og gegndi því embætti til ársins 1961. Leifur Eyjólfsson kom sem kennari til skólans haustið 1943. Hann var síðan skólastjóri Barnaskólans á árunum 1961 til 1989. Miðskólinn varð sér stofnun árið 1961 og nefndist Gagnfræðaskóli Selfoss til ársins 1991 þegar nöfnum skólanna var breytt í Sólvallaskóli og Sandvíkurskóli. Nöfnum skólanna var breytt með tilliti til breyttra hlutverka þeirra frá því að vera barna- og gagnfræðskóli til þess að vera tveir hliðstæðir skólar með alla aldursflokka. Nafn Sandvíkurskóla vísar til þess að hann á rætur í skólahaldi Sandvíkurhrepps, sem hefur verið sameiginlegt með Selfossi alla tíð.

Óskar Þór Sigurðsson tók við skólstjórastöðunni 1989 og gegndi henni til 1995. Hann hafði fyrr verið yfirkennari skólans um árabil. Kolbrún Guðnadóttir varð sama haust aðstoðarskólstjóri. Haustið 1995 tók Guðbjörg Þórisdóttiir við stöðu skólastjóra og var í eitt ár. Haustið 1996 var Páll Leó Jónsson ráðinn skólastjóri.

Húsnæðisleysi og byggingamál hafa einkennt Barnaskóla Selfoss frá upphafi. Þetta er eðlilegt því bærinn hefur vaxið mjög ört. Haustið 1970 hófst kennsla 6 ára barna. Hún fór fram í leiguhúsnæði fyrstu árin. Veturinn 1973 varð eldgos í Vestmannaeyjum sem olli töluverðri íbúafjölgun á Selfossi. Þá var gripið til þess ráðs að setja útistofur á lóð Barnaskólans og eru þær enn í fullri notkun og að auki bættust fjórar útistofur við á tún Landsbankans árið 1996.

Árið 1982 var byggð viðbótarálma við húsið. Í henni eru skrifstofur skólans, kennarastofa og vinnuaðstaða fyrir kennara.

Enn vantaði húsnæði fyrir grunnskólann á Selfossi. Miklar umræður fóru fram varðandi áframhaldandi byggingar. Niðurstaðan varð sú að byggja í þriðja sinn við Sandvíkurskóla og var sú bygging vígð haustið 1999 og snýr að Tryggvagarði.

Telja verður að nú sé Sandvíkurskóli fullbyggður en fyrirhugað er að byggja nýjan skóla og fjarlægja þá útistofur við Sandvíkurskóla. Lífið heldur áfram og við gerum ráð fyrir að bærinn okkar haldi áfram að stækka og þroskast og börnunum fjölgi. En það er framtíðin og hún verður ekki skráð hér.

- Sigrún Ásgeirs tók saman (1999)