Nemendaverndarráð

Í grunnskólalögum frá 1995 er að finna heimild til að stofna og starfrækja nemendaverndarráð: Í grunnskóla er heimilt að stofna nemendaverndarráð til að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda varðandi námsráðgjöf, sérfræðiþjónustu og heilsugæslu. (Lög um grunnskóla 1995 nr. 66, 39. grein).

Í reglugerð um nemendaverndarráð segir m.a: Í nemendaverndarráði geta átt sæti skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri, umsjónarmaður sérkennslu ef hann starfar við skólann, fulltrúi heilsugæslu, þar sem því verður við komið, fulltrúi sérfræðiþjónustu skóla, þar sem því verður við komið og námsráðgjafi skólans, sé hann starfandi. Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri er formaður nemendaverndarráðs. (Reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum 1996, 2. grein ).

Nemendaverndarráð Vallaskóla heldur að jafnaði fundi hálfsmánaðarlega og er dagskrá funda flokkuð með tilliti til starfsstöðva.

Fulltrúar

Fastafulltrúar í nemendaverndarráði eru deildarstjóri sérkennslu, sem er starfsmaður ráðsins, skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri, skólahjúkrunarfræðingur, fulltrúi félagsþjónustu Árborgar og sálfræðingur frá Skólaskrifstofu Suðurlands.

Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði varðandi einstaka nemendur sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast máli nemandans ef þörf krefur. Starfsemi ráðsins tekur mið af aðstæðum í hverju tilviki.

Fundir eru færðir til bókar. Fara skal með persónulegar upplýsingar samkvæmt reglum um meðferð trúnaðargagna.