Einelti

olweusarlogo_tu

Gegn einelti í Vallaskóla

Hugmyndafræði félagsfræðiprófessorsins Dan Olweusar gegn einelti var tekin upp í Vallaskóla skólaárið 2002-2003. Unnið hefur verið eftir henni í meginatriðum síðan. Eineltisáætlunin hér, sem tekur gildi skólaárið 2013-2014, leysir af hólmi eldri áætlun sem hefur verið í gildi frá skólaárinu 2002-2003.

Einkenni eineltis er samkvæmt skilgreiningu Olweusar:

 • Neikvæð og illgirnisleg hegðun
 • Hegðun sem endurtekur sig í nokkurn tíma
 • Samskipti sem einkennast af ójafnvægi aflsmuna eða annars valds

Endurtekin neikvæð hegðun

Þegar einhver verður aftur og aftur fyrir óþægilegu áreiti eins eða fleiri, endurteknum særandi athugasemdum, ofbeldi eða útilokun úr félagahópi þá tölum við um einelti. Við tökum jafnvel eftir að þolandi á erfitt með að verja sig. Það er líka einelti ef stríðni er endurtekin og sá sem er strítt sýnir að sér mislíki hún. Góðlátleg stríðni jafningja og félaga telst að öllu jöfnu ekki einelti. Sama ef tveir álíka sterkir nemendur takast á í ærslafullum leik.

Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis í samfélaginu. Einelti á sér ekki einungis stað innan veggja skóla eða á ónefndum stað úti í bæ. Einelti þrífst á samskiptasvæðum internetsins, sérstökum heimasíðum og með notkun farsíma. Aðgerðaráætlunin gegn einelti nær líka þangað.

Fjórskiptingin FÁVE

Aðgerðaráætlun gegn einelti í Vallaskóla skiptist upp í fjóra hluta en þeir eru:

 

 • Forvarnir,
 • Ábendingar og greining atvika,
 • Vettvangsaðgerðir
 • Eftirfylgni.

 

 

1. Forvarnir

Meginstoðir í forvarnahlutanum eru eftirfarandi:

 • Skólasamfélagið allt tekur eindregna afstöðu gegn einelti með markvissri umfjöllun og fræðslu um eyðileggingarmátt eineltis og birtingarmynd þess. Umfjöllunin fer fram á meðal nemenda, starfsfólks skólans og tengdra stofnana, foreldra, skólaráðs og í þeim miðlum sem Vallaskóli hefur yfir að ráða.
 • Það er skylda skólasamfélagsins að skapa andrúmsloft þar sem einelti er ekki liðið. Í því felst hlýlegur og jákvæður áhugi hinna fullorðnu, rammi sem tekur á óviðunandi atferli, stefnuföst beiting agastjórnunar án líkamlegrar eða óvinveittrar íhlutunar og viðurkenning á valdi hinna fullorðnu, sem yfirboðara, við ákveðnar aðstæður. Leiðarljósin í Vallaskóla eru: Agi, lausnir og umhyggja.
 • Þekking á eineltishringnum er öllum í skólasamfélaginu mikilvæg. Um eineltishringinn er fjallað í foreldrabæklingi Olweusaráætlunarinnar og í handbók starfsmanna. Eineltishringurinn hangir uppi í öllum kennslustofum og er hann reglulega til umfjöllunar meðal kennara og nemenda.
 • Í hverjum bekk skal umsjónarkennari halda bekkjarfundi u.þ.b. hálfsmánaðarlega. Á slíkum fundum er m.a. fjallað um mikilvægi þess að halda uppi jákvæðum skólabrag. Góður skólabragur einkennist m.a. af umburðarlyndi, virðingu, samkennd og lífsgleði. Gildi Vallaskóla eru: Virðing, þekking, lífsgleði. Höfðað er til ábyrgðar nemenda gagnvart eineltishegðun með því að hver bekkur setur sér bekkjarreglur er varða dagleg samskipti. Ein af reglunum skal miðast við að tekin sé afstaða gegn einelti.
 • Gott upplýsingaflæði milli nemenda, starfsmanna skólans og tengdra stofnana annars vegar og heimili og skóla hins vegar skiptir afar miklu máli í því að sporna við eineltishegðun og að leysa eineltismál. Nemendur eru hvattir til að segja frá minnsta grun um eineltishegðun. Því fyrr sem slíkt gerist því fyrr næst að uppræta einelti. Það sama gildir um foreldra enda má leiða líkur að því að þolandi eineltis sýni fyrstu merki um vanlíðan heima fyrir.
 • Eftirlit og gæsla er stór þáttur í því að fyrirbyggja einelti. Skipulagt eftirlit er með nemendum í frímínútum og hádegishléi, inni í skólanum og á skólalóð. Starfsmenn á skólalóð eru í endurskinsvestum. Eftirlitið nær einnig til búningsherbergja íþróttahúss og sundlaugar. Starfsmenn skólans og íþróttamannvirkja sjá um eftirlitið.
 • Á hverju hausti er lögð fyrir nafnlaus könnun (Olweusarkönnunn) þar sem umfang eineltis í skólanum er kannað. Könnunin er á rafrænu formi og unnin í samstarfi við framkvæmdastjóra Olweusaráætlunarinnar á Íslandi. Niðurstöður könnunarinnar eru kynntar öllum í skólasamfélaginu og brugðist er við í samræmi við þær.
 • Starfsfólk Vallaskóla hittist á reglulegum fundum á hverju skólaári þar sem fjallað er um einelti og bestu leiðirnar til að hindra slíka hegðun. Fundirnir gegna líka hlutverki upprifjunar á meginatriðum aðgerðaráætlunarinnar. Á hverju ári má búast við að nýir starfsmenn og nemendur bætist í hópinn og því er mikilvægt að halda aðgerðaráætluninni við með reglubundnum hætti.
 • Eineltisteymi Vallaskóla er skipað 4-6 lykilstarfsmönnum (verkefnisstjóri Olweusar, deildarstjórar, námsráðgjafar og hjúkrunarfræðingur) og eru þeir einnig starfsmenn Lausnateymis Vallaskóla. Lausnateymi Vallaskóla fundar einu sinni í viku og helstu verkefni þess hvað varðar áætlun gegn einelti í skólanum eru: Að vinna að forvörnum, samræma og varðveita upplýsingar um eineltismál, bregðast við ábendingum um einelti og fylgja aðgerðum eftir.
 • Skólaráð Vallaskóla gegnir hlutverki stýrihóps aðgerðaráætlunarinnar.
 • Notkun agastjórnunartækis Vallaskóla, Uppeldisstefnu Vallaskóla, og beiting atferlisþjálfunar ART gegnir mikilvægu hlutverki í aðgerðaráætlun gegn einelti, bæði í vinnu með forvarnir og í vettvangsaðgerðum. ART og Uppeldisstefna Vallaskóla styðja vel við hugmyndafræði Olweusar, og öfugt.

 

2. Ábendingar og greining atvika - Að segja frá!

Flestir vilja koma þolanda eineltis til aðstoðar ef tekið er mið af niðurstöðum eineltiskannana. Það er gott að vita þegar hugrakkir skólafélagar eða ábyrgðarfullir foreldrar bregðast við einelti, annaðhvort með beinni íhlutun eða ábendingu til starfsmanna skólans.

Því fyrr sem upplýsingum er komið á framfæri um mögulegt einelti því fyrr er hægt að leysa málin með öruggum hætti. Þeir sem koma ábendingu á framfæri við starfsmenn Vallaskóla geta treyst því að brugðist verður við af fagmennsku og trúnaðar gætt.

Ábendingar eru meðhöndlaðar með eftirfarandi hætti:

Grunur kviknar eða vitneskja um einelti berst starfsmanni skólans. Alltaf skal taka slíkar ábendingar alvarlega og bregðast við þeim af fagmennsku. Hægt er að tilkynna einelti með rafrænum hætti á netfangi eineltisteymis Vallaskóla: einelti@vallaskoli.is.
Starfsmanninum ber síðan að gera bæði viðeigandi umsjónarkennara og fulltrúa eineltisteymis skólans viðvart. Það skal gert eins fljótt og auðið er.
Umsjónarkennari tekur við málinu, greinir og frumskráir helstu upplýsingar. Bregðast skal við ábendingunni samkvæmt eftirfarandi skilgreiningu:

3. Vettvangsaðgerðir

Samskiptavandi/atvik – Leysum málin

 • Komið er í veg fyrir óæskilega hegðun með skýrum skilaboðum og myndugleika
 • Umsjónarkennari kannar atvikið og tekið er tillit til sjónarmiða allra sem að málinu koma
 • Umsjónarkennari upplýsir verkefnisstjóra eineltisteymis
 • Leiðbeint um félagsfærni (stuðst við skóla- og bekkjarreglur, uppeldisstefnu, ART og eineltishringinn)
 • Umsjónarkennari bókar ferli málsins í dagbók hluteigandi nemenda á Mentor og ræðir við foreldra þeirra

Grunur um einelti – Við líðum ekki einelti!

 • Umsjónarkennari kannar atvikið og ræðir fyrst við þolanda
 • Umsjónarkennari fer yfir málið með fulltrúa eineltisteymis
 • Óæskileg hegðun stöðvuð – umsjónarkennari ræðir við meintan geranda af myndugleika
 • Úrræðum uppeldisstefnu beitt og leiðbeint um félagsfærni með aðstoð námsráðgjafa
 • Eftirlitskerfið virkjað og verkefnisstjóri eineltisteymis kemur upplýsingum til hluteigandi starfsmanna
 • Umsjónarkennari bókar ferli málsins í dagbók hluteigandi nemenda á Mentor og ræðir við foreldra þeirra

Staðfest einelti – Eineltishegðun stöðvuð

 • Fulltrúar eineltisteymis taka málið að sér í samvinnu við umsjónarkennara
 • Umsjónarkennari ræðir við þolanda
 • Námsráðgjafi ræðir við geranda
 • Einteltið stöðvað og úrræðum uppeldisstefnu beitt
 • Eftirlitskerfið virkjað og verkefnisstjóri eineltisteymis kemur upplýsingum til hluteigandi starfsmanna
 • Umsjónarkennari og námsráðgjafi ræða við hluteigandi foreldra nemenda
 • Umsjónarkennari skráir ferli málsins í dagbók hluteigandi nemenda á Mentor

 

4. Eftirfylgni

Samskiptavandi/atvik – Félagsfærni og vöktun

 • Verkefnisstjóri eineltisteymis skráir atvikið á vöktunarlista eineltisteymisins
 • Umsjónarkennari ræðir við og fylgist með þolanda í eina viku eftir atvikið (vöktunarvika)
 • Umsjónarkennari og námsráðgjafi vinna með félagsfærni á bekkjarfundi
 • Umsjónarkennari ræðir við foreldra þolanda í lok vöktunarviku
 • Hafi ekkert nýtt komið fram innan tveggja vikna er aðgerðum af hálfu umsjónarkennara formlega lokið (skráð í dagbók nemanda á Mentor og tilkynnt eineltisteymi)
 • Eineltisteymið fjallar um málið og ákveður frekari eftirfylgni (mál skráð sem atvik og haldið opnu eða lokuðu)

Grunur um einelti – upplýsingaöflun og vöktun

 • Verkefnisstjóri eineltisteymis skráir atvikið á vöktunarlista eineltisteymis og stofnar dagbók þolanda
 • Rætt er við og fylgst með þolanda og meintum geranda í a.m.k. eina viku (vöktunarvika)
 • Tengslakönnun lögð fyrir
 • Námsráðgjafi tekur þolanda í viðtal
 • Umsjónarkennari og námsráðgjafi vinna með félagsfærni á bekkjarfundi
 • Eineltisteymið fjallar um málið  og ákveður frekari eftirfylgni
 • Umsjónarkennari upplýsir hluteigandi foreldra um framgang málsins

Staðfest  einelti – Stöðvun eineltis og vöktun

 • Verkefnisstjóri eineltisteymis skráir atvikið á vöktunarlista eineltisteymis og stofnar dagbók þolanda
 • Námsráðgjafi veitir þolanda áfallahjálp
 • Umsjónarkennari ræðir við þolanda í a.m.k. einu sinni í viku næstu fjórar vikurnar
 • Námsráðgjafi ræðir við geranda einu sinni í viku næstu tvær vikurnar
 • Umsjónarkennari og námsráðgjafi vinna með félagsfærni á bekkjarfundi
 • Eineltisteymi fer yfir virkni eftirlitskerfis og árangur aðgerða (málið skráð sem eineltismál og haldið opnu í a.m.k. þrjá mánuði)
 • Umsjónarkennari og námsráðgjafi upplýsa hluteigandi foreldra nemenda um framgang málsins
 • Brugðist er við vanda geranda með skólasamningi þar sem aðkomu foreldra er krafist
 • Námsráðgjafi fylgir skólasamningi eftir í þrjá mánuði með reglubundnum viðtölum við geranda og foreldra hans
 • Láti gerandi enn ekki af hegðun sinni færir skólastjóri Nemendaverndarráði Vallaskóla mál hans til meðferðar og aðkoma verkefnisstjóra Olweusaráætlunarinnar á Íslandi skoðuð
 • Nemendaverndarráð og skólastjóri vísa máli geranda til Fagráðs eineltismála á Íslandi innan tveggja vikna finnist ekki viðunandi lausn

Ekki leggja í einelti! Leggðu í vináttu!