Það er bara eitt líf

Berent Karl Hafsteinsson, Benni Kalli, kom í Vallaskóla á Selfossi og var með forvarnaerindi þar sem hann greindi nemendum í 10. bekk frá hræðilegu umferðarslysi sem hann lenti í sem ungur maður.

Fræðsla Benna Kalla er áhrifamikil. Hann fer yfir æsku sína og segir að hann, sem unglingur, var jafn ósnertanlegur og aðrir fyrir slysið, að hann ætti nú ekki eftir að lenda í neinu þrátt fyrir varnaðarorð í þessum heimi og fyrir handan. Þetta er nauðsynlegur undanfari sem tengir sögu hans enn betur við krakkana sem eru að hlusta.

Þar á eftir fer hann nákvæmlega yfir slysið sjálft og öll þau atvik sem urðu til að bjarga lífi hans. Og ekki var nóg að halda lífi því erfitt bataferli tók við og ljóst er að Benni Kalli verður aldrei samur aftur, hvorki á líkama né sál. Engu að síður er líf eftir slysið og yfir það fór hann kinnroðalaust. Í raun fannst krökkunum ótrúlegt að sjá og heyra hvað Benni Kalli átti auðvelt með að segja frá þessu.


Benni Kalli gefur sig allan í verkefnið og á þann hátt að unglingarnir halda athyglinni allan tímann, hátt í tvær klukkustundir. Hann er skemmtilegur, fyndinn og fræðsla hans er góð og upplýsandi. Á meðan maður fylgist með Benna þá eru hræðilegar afleiðingar slyssins ætíð nálægar, hvort sem það er í andlitsdráttum og líkama Benna eða þeirri myndasýningu, gervifótum og sögu sem hann miðlar með miklum tilþrifum. Slíka forvarnafræðslu sér maður ekki á hverjum degi.