Sumarleyfi og skólaárið 2011-2012

Nú þegar komið er að sumarleyfi er ágætt að skoða það sem er í deiglunni um þessar mundir í starfsemi Vallaskóla fyrir næsta skólaár.

Þar stendur auðvitað hæst flutningur á starfsemi Sandvíkur yfir á Sólvelli og í húsnæði félagsmiðstöðvarinnar (gamla safnhúsinu sem nú, í hagræðingarskyni, kallast Valhöll manna á milli í skólanum til samræmis við nafn skólavistunar – Bifröst – og þykir fara vel á). 

Enn er óvíst um hvaða starfsemi Sandvík muni hýsa í framtíðinni en heyrst hefur að mikill áhugi sé á því að þar verði fræðslu- eða vísindatengd starfsemi. Verði það ofan á er komið öflugt svæði fræðslu-, íþrótta og skólamenningar, sem nær allt frá Tryggvagarði að Langholti með FSu innanborðs.

Bekkir og fjöldi
Á næsta skólaári verða 26 bekkjardeildir í Vallaskóla og nemendur um 550 talsins. Það telst vera ákjósanleg skólastærð og allt aðrar aðstæður uppi nú en þegar um 950 nemendur voru við nám í skólanum. Vallaskóli er að ná jafnvægi í stærð og starfsemi þegar tíunda starfsárið hefur göngu sína.

Valhöll
1. og 2. bekkur verður staðsettur í Valhöll (gamla félagsmiðstöðvarhúsinu) en þar eru framkvæmdir á fullu sem stendur. Það lítur vel út með allt skipulag fyrir okkar yngstu nemendur og því mikið tilhlökkunarefni að sjá hvernig starfið þar fer í gang í haust. Flestum ber saman um að vel muni fara um nemendur í Valhöll og í raun frábært að krakkarnir geti hafið skólagöngu sína við þessar aðstæður. Aðlögun að stærra skólahúsnæði og nálægðin við Bifröst eru auðvitað góðir kostir og svo verður leiksvæðið vestanmegin Sólvalla aðlagað að þörfum barnanna.

Sólvellir
3.-10. bekkur verður staðsettur á Sólvöllum og þar verða því líka breytingar. Í vesturhluta húsnæðisins verður 3. og 4. bekkur til húsa (sem næst Valhöll og Bifröst) og á miðgangi verður miðstigið, þ.e. 5.-7. bekkur, staðsett. Miðstigið mun njóta nálægðar bókasafns, tölvustofu og mötuneytis. Unglingastigið, 8.-10. bekkur, verður allt staðsett í Austurrými en með því er reynt að koma til móts við okkar eldri nemendur hvað aðstöðu varðar. Þeir þurfa ekki lengur að bera þungar töskur langar leiðir á milli kennslustofa og aðstæður í frímínútum verða notalegri. 

Vallaskóli á einni torfu
Eftir breytingarnar er Vallaskóli loksins sameinaður á einni torfu og aðgengi nemenda að allri þjónustu mikið jafnara og betra. Almennar skólastofur verða 30 talsins, fyrir utan sjö sérgreinastofur og 10 sérkennslurými. Gert er ráð fyrir að lokið verði við flutninginn um miðjan júlí.

Starfsmannamál
Guðrún Jóhannsdóttir, deildarstjóri yngri deildar, verður í námsleyfi skólaárið 2011-2012. Guðrún Jóna Hannesdóttir, kennari við skólann, hefur verið ráðin deildarstjóri yngri deildar í forföllum Guðrúnar Jóhannsdóttur og verður Jóna með skrifstofuaðstöðu í Valhöll. Að öðru leyti eru allar stöður mannaðar við skólann og lítil hreyfing á fólki.

Afgreiðslutími eftir sumarleyfi og sumarkveðja
Skólavistun opnar 3. ágúst. Skrifstofa Vallaskóla opnar 8. ágúst.

Starfsfólk Vallaskóla þakkar fyrir samstarfið á skólaárinu sem er að líða og óskar nemendum sínum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars. Sjáumst í haust, hress og endurnærð.