Snjallar stelpur

Spurningakeppni Vallaskóla, Kveiktu, var haldin í fimmta skipti nú í mars. Mikill áhugi var á keppninni og liðin, sem í eru fulltrúar allra bekkja á unglingastigi, stóðu sig með prýði.

Keppnin er útsláttarkeppni og að lokum fór svo að 9. AH (Sindri Snær, Unnar og Andrea Vigdís) mættu sigurvegurunum frá því í fyrra, stelpunum snjöllu í 10. GG (Halldóra Íris, Hrafnhildur og Guðrún), í úrslitum. Úrslitakeppnin fór fram í Austurrými Vallaskóla frammi fyrir öllu unglingastiginu.

Eftir harða keppni framan af fór svo að reynslan skilaði stúlkunum í 10. GG glæsilegum sigri. Þær fá að launum nafn sitt ritað á verðlaunagrip keppninnar, Lampann, ásamt því að hver þeirra hlaut bókaverðlaun og páskaegg.

Keppnin er orðin einn af helstu viðburðum hvers árs í skólastarfinu hjá okkur í Vallaskóla en það er Hanna Lára Gunnarsdóttir sem sér um að semja allar spurningar, skipuleggja og dæma keppnina af miklum myndarskap. Aron Hinriksson er spyrill og aðstoðar við skipulagningu.

Myndirnar tók Sverrir Victorsson 9. MA fyrir Vallaskóla.

Þess má geta að vinningsstelpurnar úr 10. GG skipa einnig spurningalið Vallaskóla í Spurningakeppni grunnskólanna. Þær urðu Suðurlandsmeistarar fyrir ekki svo löngu og eru komnar í fjögurra liða úrslit á landsvísu.