Heimanám
Nám er vinna og heimanám er mikilvægur þjálfunarþáttur fyrir alla nemendur. Á yngsta stigi skólans (1.-4. bekkur) er því stillt í hóf en heimalestur er mjög mikilvægur. Mínúturnar þurfa ekki að vera margar en nauðsynlegt er að einhver sitji með barninu og aðstoði það daglega. Skrift er ekki síður mikilvæg og þessa þætti þarf að þjálfa upp á unglingastig.
Á miðstigi (5.-7. bekkur) bætast lesgreinar við og þeim þarf að sinna reglulega. Best er að skipuleggja heimanámið með barninu og námsráðgjafi skólans veitir aðstoð við það ef óskað er eftir.
Á unglingastigi (8.-10. bekkur) er námsefnið mjög mikið og ef því er ekki sinnt jafnt og þétt er hætt við að illa fari. Ein og hálf til tvær klukkustundir á dag er ágæt viðmiðun. Það er ekki skynsamlegt að ætla sér að lesa allt upp rétt fyrir próf. Upprifjun á námsefni fyrri viku/vikna er ekki síður nauðsynleg en heimavinna fyrir næsta dag. Námráðgjafi er nemendum til aðstoðar við skipulag heimanáms.