21. maí 2013 Pistill um mjólkurvörur

Kæru foreldrar/forráðamenn.

Hér koma nokkrir fróðleiksmolar um mikilvægi þess að borða mjólkurvörur daglega og einnig fylgja með nokkrar boost-uppskriftir. Njótið vel.

Mjólkin er mikilvæg fyrir beinin

Mjólk og mjólkurvörur eru næringarríkur matur. Í þeim er t.d. mikið af próteinum, B2- og B12-vítamíni, kalki, joði, seleni og kalíum. Ef fólk neytir reglulega mjólkurvara stuðlar það að uppbyggingu og viðhaldi beina og dregur þar með úr hættu á beinþynningu. Neysla mjólkurvara er sérstaklega mikilvæg fyrir beinmyndun í barnæsku og á unglingsárum. D-vítamín þarf þó jafnframt að vera í nægu magni til að kalkið nýtist líkamanum sem skyldi.

Ekki fá allir nóg kalk

Mjólkurmatur er langmikilvægasti kalkgjafinn í fæðunni. Unglingsstúlkur sem ekki drekka nóg af mjólk eru í einna mestri hættu á að ná ekki ráðlögðum dagskammti af kalki.

Veljum oftar fituminni vörur

Ýmsar mjólkurvörur, t.d. margir ostar, nýmjólk og rjómi og afurðir sem gerðar eru úr þessum vörum, innihalda hlutfallslega mikið af mettaðri fitu. Mataræði, sem er ríkt af mettaðri fitu, hækkar LDL-kólesteról í blóði en það eykur hættuna á kransæðasjúkdómum. Af þeim sökum er ráðlagt að neyta feitra mjólkurvara í hófi en velja oftar fituminni vörur. Rannsóknir benda til að hæfileg neysla slíkra mjólkurvara hafi jákvæð áhrif á heilsufar manna, þar á meðal á blóðfitu, blóðþrýsting og þróun sykursýki af gerð 2.

Hæfilegur mjólkurskammtur

Tveir skammtar á dag:

. Hæfilegt er að fá sér tvö glös, diska eða dósir af mjólk eða mjólkurmat á dag.

. Þetta samsvarar ½ lítra eða 500ml yfir daginn.

. Best er að velja fitulitlar og ósætar eða lítið sykraðar vörur.

. Ostur getur komið í stað mjólkurvara að hluta til. 25 grömm af osti jafngilda einu glasi eða diski af mjólkurvörum.

(Fengið af vefsíðu landlæknisembættis úr bæklingnum Ráðleggingar um mataræði og næringarefni)

 

Hér eru nokkrar boost-uppskriftir Notið blandara til að blanda drykkin.

Kraftmikið kaffi og súkkulaðiboost

250 gr vanilluskyr

1dl sterkt kaffi

2msk heslihnetu- og súkkulaðimauk

6-8 ísmolar

 

Bananaboost

1/2 250gr dós bláberjaskyr

1/2 250gr dós Ferskju-og hindberjaskyr

1/2 Banani

 

Ávaxtamjólk

1l AB-mjólk, abt-mjólk eða súrmjólk

¼ melóna (gul)

100g bláber

2 appelsínur

50g döðlur

2 msk morgunkorn

 

Trönuberja- og myntuboost

250gr jarðarberjaskyr

1dl trönuberjasafi

0,5dl eplasafi

6-8 limelauf

6-8 ísmolar

 

Gleðilegt sumar og njótið dagsins.

Ásdís Björg og Gummi Sigmars

F.h. Stýrihóps Heilsueflandi skóla í Vallaskóla

Vallaskóli – Heilsueflandi skóli