Þorvaldur H. Gunnarsson aðstoðarskólastjóri Vallaskóla skrifar
thorvaldur@vallaskoli.is – 12. mars 2022
Það eru yfir 1900 Fab Lab smiðjur til í heiminum og ég horfi á eina þeirra út um skrifstofugluggann minn. Það vita kannski ekki margir en rétt handan við skólalóð Vallaskóla á Selfossi er ein fullkomnasta Fab Lab smiðja landsins.
–
Fyrir stuttu slóst ég í för með nemendum úr tveimur valgreinarhópum á unglingastigi Vallaskóla þar sem þeir örkuðu í slyddu og snjó út í Fjölbrautaskóla Suðurlands, n.t.t. í verknámshús skólans – Hamar. Við vorum á leið í fyrsta Fab Lab tímann okkar hvað sem það nú er! Vallaskóli hefur notið þess í nokkur ár að vera í samstarfi við FSu um valgreinar á unglingastigi og Fab Lab er ein þeirra.
Í Hamri tók á móti okkur Magnús Stephensen Magnússon staðarhaldari Fab Lab smiðjunnar á Selfossi sem í daglegu tali kallast einfaldlega Fab Lab Selfoss. Frómt frá að segja, eftir að inn var komið, þá var ekki annað að sjá en að smiðjan sé stílhrein og lítur út fyrir að vera spennandi staður til að vera á.
Fab Lab merkið á einum vegg smiðjunnar (ÞHG 2022).
Magnús hóf óðara að segja okkur frá tilurð smiðjunnar en hún hóf göngu sína árið 2018 fyrir tilstuðlan Héraðsnefndar Árnesinga og fleirri góðra fyrirtækja og stofnana. Fyrsta smiðjan á Íslandi var sett upp í Vestmannaeyjum árið 2008 en nú er þær að finna víðsvegar um landið.
Aðspurður segir Magnús það upp og ofan hvort nemendur viti hvað Fab Lab er áður en þeir stíga þarna inn. ,,Já, einmitt!” hugsa ég. ,,Hvað er Fab Lab?”
Fab Lab er stytting á enska heitinu ,,Fabrication Laboratory” en í stuttu máli er það heiti á smiðju eða verkstæði með allskonar tækjum og tólum til að búa til og hanna hvaða hluti sem er. Uppruninn er í Bandaríkjunum en það var prófessorinn Neil Gerschenfeld sem kom þessu fyrirbæri til leiðar smátt og smátt en upphafið má rekja til þess tíma er hann kenndi fagið ,,How to make (almost) anything” við MIT háskólann (The Massachusetts Institute of Technology).
,,Get ég búið til regnhlíf hérna”, spurði ég sposkur. ,,Já, það er lítið mál”, svaraði Magnús kíminn og bar upp tillögu að framkvæmd. Hver sem er getur í raun fengið inni í smiðjunni og unnið að sínum hugmyndum eða verkefnum. Hún er reyndar ekki ætluð til fjöldaframleiðslu heldur er þarna aðstaða til að hanna og búa til frumgerðir hluta sem gætu allt eins orðið á hvers manns borði einhvern tímann síðar. Smiðjan er því aldeilis góður vinur frumkvöðla og þeirra sem ætla að feta sig á brautum nýsköpunar.
Nokkrir skrítnir og minna skrítnir hlutir sem búnir hafa verið til í Fab Lab Selfoss (ÞHG 2022).
Í smiðjunni eru sem sagt ákveðin grunntæki til staðar. Magnús kynnir okkur fyrir nokkrum gerðum af þrívíddarprenturum sem prenta út hluti úr þar til gerðum plastefnum. Þarna er vínylskeri, bolapressa og prentari sem prentar út límmiða og skilti í mjög góðri upplausn en með þeirri græju er líka hægt að prenta á tau. Aðgangur er að leysigeislaskera/skurðarvél en hún er höfð í sérstöku herbergi. Leysigeislaskerinn í Fab Lab Selfoss er einn sá krafmesti á Íslandi; yfir 130 W en venjulega eru þeir helmingi kraftminni. Þarna sáum við svo dágóðan plötufræsara sem er nokkrir fermetrar að stærð. Svo má ekki gleyma tölvustýrðri borvél og hvað þá litla fínfræsaranum sem sker út rafeindabúnað. Og er þá ekki allt upp talið!
Plötufræsarinn góði (ÞHG 2022).
Fab Lab Selfoss þjónustar fyrst og fremst skóla og almenning í Árnessýslu en mikið og gott samstarf er á milli Fab Lab smiðja á Íslandi almennt. Til að mynda er www.fablab.is sameiginlegt vefsetur þeirra og þar er m.a. hægt að afla sér upplýsinga um lausa smiðjutíma. Magnús segir ennfremur að hafi einhver lært á eina Fab Lab smiðju þá geti hann gengið inn í hvaða Fab Lab smiðju sem er í heiminum og farið að vinna. Hann á að kannast strax við umhverfið. Þetta eru opnir og sveigjanlegir vinnustaðir, líkir að uppbyggingu og skipulagi.
Frá Hamri. Magnús S. Magnússon segir nemendum í Vallaskóla frá Fab Lab Selfoss (ÞHG 2022).
Nokkrir kennarar úr grunnskólum Árnessýslu hafa nýtt sér Fab Lab Selfoss og komið með nemendahópa. ,,En þeir mættu gjarnan vera fleiri. Það er hægt að samþætta svo margar greinar hérna og möguleikarnir eru endalausir”, segir Magnús. Lagt er upp úr því að kennararnir læri á tækin áður en þeir koma með nemendur en þeir geta líka lært samhliða nemendum ef þeir vilja. ,,Svo er kenndur áfangi í FSu sem heitir Fab Lab en gaman er að segja frá því að þeir nemendur sem kynnst hafa Fab Lab smiðju í grunnskólanum skrá sig oftar en ekki í þennan áfanga”, segir Magnús.
Ýmsar spennandi græjur (ÞHG 2022).
Til að þú getir notað tækin þá þarftu fyrst að ná valdi á aðaltölvuhugbúnaði Fab Lab smiðjunnar en það er forritið Inkscape. Og nú var komið að Höllu Rúnarsdóttur verkgreinakennara í Vallaskóla að segja nemendum aðeins frá því.
Halla útskýrði að Inkscape væri forrit sem ,,hugsaði” í línum. Þetta gerði hún um leið og hún útdeildi kennsluefninu ,,Skapandi samfélag”. Nemendur fóru strax að lesa og prófa efnið í tölvu. Halla sagði nemendum að samfélagið liti sköpunarþáttinn mikilvægum augum og með því að spreyta sig á því að hugsa og útfæra hugmyndirnar sínar í Fab Lab þá gæti það til dæmis verið upphafsskrefið að stofna fyrirtæki – hver veit? Halla er hér með óbeinum hætti að tala um og vinna með eina af sex grunnstoðum náms í sinni kennslu, þ.e. sköpun (sjá aðalnámskrá grunnskóla, 2013). Það er nefnilega þannig að ,,Helstu vandamál sem blasa við íbúum heimsins í dag verða ekki leyst án skapandi hugsunar. Mengun, ofneysla, orkuþörf, átök, hráefnaskortur, misrétti, siðferðileg álitamál tengd nýrri tækni, fátækt og þjóðflutningar eru allt flókin viðfangsefni.” (Ingibjörg og félagar, 2012, bls. 15) Til að leysa þessi vandamál og takast á við áskoranir framtíðarinnar þá þarf að næra sköpunargáfuna hjá öllum einstaklingum.
Hægt er að líta á sköpunargáfuna sem ákveðið hugsanasett sem við öll beitum daginn út og inn, mismikið þó. Í nýsköpunar- og frumkvölafræðum er hún kölluð ,,möguleikahugsun” (e. possibility thinking). Það er hugsanasett sem neitar að vera ,,fórnarlamb aðstæðna” og leitar leiða fram hjá vandamálum m.a. með notkun hugarflugsins og spurninga (Jeffrey og Craft, 2006). Ef notuð og æfð þá hjálpar hún okkur að skilja umhverfi okkar, sjálf okkur og gerir okkur betur í stakk búin til að takast á við áskoranir lífsins. Þess vegna er svo mikilvægt að virkja sköpunargleðina. ,,Sú er í það minnsta skoðun Herdísar Egilsdóttur kennara og höfundar. Fái sköpunargleðin notið sín er líklegt að árangur náist. Hún bendir á hve áhugi barna er miklu meiri á því sem þau eiga uppástunguna að sjálf og mega líta á sem sitt eigið verk.” (Ingibjörg og félagar, 2012, bls. 2)
Halla Rúnarsdóttir verkgreinakennari í Vallaskóla (ÞHG 2022).
,,Má ég sleppa stærðfærði og vinna bara hér”, spurði einn nemandi Höllu. Þetta vakti kátínu viðstaddra. Auðvitað getum við ekki sleppt stærðfræði en pælingin hjá nemandanum var réttmæt og í anda Herdísar hér að ofan. Sköpunargleði er flæði og gefur tækifæri á að gleyma stað og stund, laus undan skipulagi stundatöflu, utanbókarlærdóms og prófa. Þarna sá nemandinn kannski tækifæri til að taka stjórnina á sínu eigin námi, næra áhugamál sitt um leið og hann svo sannarlega menntar sig. Kannski sá hann fyrir sér að tengja saman hluti og uppgötva ný sjónarhorn (e. synthetic ability), iðka greinandi hugsun, setja í samhengi (e. analytic ability) og framkvæma (e. practical ability) (Ingibjörg og félagar, 20212). Ættum við ekki að færa okkur nær þessum veruleika hvað menntun barna okkar varðar?
Langspil sem búið er til frá grunni í Fab Lab Selfoss af nemanda í Flóaskóla (ÞHG 2022). Viltu vita meira?
Höldum örlítið áfram með þessar sköpunarpælingar þar sem ég tel mikilvægt að dýpka skilning okkar á hugtakinu því ekki eru allir að fara að finna upp hluti og stofna fyrirtæki. Heiti greinarinnar kallast ,,Minna ess og Stærra Ess frá mínum bæjardyrum séð” og er vísun í fræðigrein Beghetto og Kaufman ,,Toward a Broader Conseption of Creativity: A Case for “mini-c” Creativity” (2007). Þar er rætt um hugtökin litla ess (e. little-c), minna ess (e. mini-c) og Stærra Ess (e. Big-C) og tengsl þeirra við hugtakið ,,sköpun” (e. creativity).
Sköpun er að mati Beghetto og Kaufman getan til að búa til afurð sem telst frumleg eða hefur í sér nýnæmi (e. original, unexpected), stenst ítrustu gæði (e. high in quality) og hefur notagildi (e. useful). Við þekkjum öll nöfnin sem hafa valdið straumhvörfum í mannkynssögunni með hugmyndum sínum og afurðum á þessum nótum, einstaklingar eins og Mozart, Einstein, Pasteur, Curie, Picasso, Shakespeare, Michelangelo, da Vinci, Parpart, Tesla, Cochrane, Edison og svona mætti halda áfram. Þetta eru Stóru Ess (ný)sköpunarsögunnar (Big-C).
En hvar byrjuðu þau að þróa hugmyndir sínar, ígrunda, sýna áhuga, gera tilraunir og jú! – mistök? Kannski í Fab Lab smiðjum þeirra tíma? Hvernig sem því var fyrirkomið þá urðu þessir einstaklingar fyrir áhrifum úr umhverfi sínu, ákveðnum stöðum og stundum. Það hefur án efa haft mótandi áhrif á sköpunargáfu/gleði þeirra og getu til aðgerða, þ.e. virkjað minna ess (Mini-c). Með bara örlitlum meiri stuðningi og athygli getur þetta einstaklingsmiðaða minna ess orðið að litlu essi (Little-c). Litla ess stendur fyrir alla þá sem fikta sig áfram í list eða skapandi starfi hverskonar, búa til afurð eða betrumbæta hinn manngerða heim en þó ekki með það markverðum hætti að það valdi beint straumhvörfum, þ.e. orðið að Stóru Essi. En það gæti þó alveg gerst síðar. Ekkert er hægt að útiloka neitt í þeim efnum.
Ætli þetta tæki, sem búið er til í Fab Lab Selfoss, muni valda straumhvörfum í mannskynssögunni? (ÞHG 2022).
Ástæðan fyrir því að ég dreg þessar hugtakaskilgreiningar inn í umræðuna um Fab Lab Selfoss er að vekja athygli á mikilvægi tengsl náms og sköpunargáfu fólks almennt sem svar við óvissu framtíðar en ekki síst til að blása kennurum og skólastjórnendum anda í brjóst. Þeir eru í lykilstöðu þegar kemur að eflingu sköpunar í námi og því að næra og styðja við minna ess hjá nemendum. Ég er eiginlega viss um að allir kennarar séu mér sammála þó ekki sé annað en vitnað til niðurstöðu stórrar rannsóknar á Evrópuári sköpunar árið 2009 þar sem kennarar úr 32 Evrópulöndum tóku þátt. ,,Yfirgnæfandi meirihluti kennaranna var þeirrar skoðunar að sköpun ætti að vera einn af grunnþáttum í menntun, að allir gætu verið skapandi og að skapandi starf væri hægt að samþætta öllum námsgreinum. Skapandi námsaðferðir fælu í sér sambland forvitni, greiningar, ímyndunarafls og gagnrýninnar hugsunar.” (Ingibjörg og félagar, 2012, bls. 7)
Ekki misskilja! Sköpunarþátturinn er svo sannarlega til staðar í leik- grunn- og framhaldsskólum landsins og margir kennarar leggja sig daglega í líma við að gera sköpun í námi og kennslu hátt undir höfði. Margt er vel gert. Engu að síður er skipulag menntakerfisins okkar enn undir miklum áhrifum af hugmyndafræði iðnbyltingar og iðnframleiðslu, ásamt áherslunni á akademískt nám og námsmat/mælingar. Það tefur fyrir breytingum í menntakerfinu sem eru nauðsynlegar fyrir börnin okkar og framtíðarhorfur þeirra. Hið almenna menntakerfi þyrfti að þróast meira í þá átt sem Ken Robertsson og Lou Aronica (2016) halda fram. Að tekið sé meira tillit til tilfinninga og ástríðna fólks þar sem áhuga og forvitni nemenda er viðhaldið út skólagönguna. Það er menntakerfi sem hverfist um lífræna hugmyndafræði (e. organic) með áherslu á heilsu, vistkerfi, réttlæti og umhyggju. Nýsköpunar- og frumkvöðlamennt leikur þar stórt hlutverk og þar með áherslan á sköpun.
Umsvifamiklu kerfi eins og menntakerfinu er ekki umbylt á einni nóttu. Tilraunir eru gerðar til þess á hverju ári með mismiklum árangri, svo mikið er víst. En það er hægt að byrja á litlum, hægum en öruggum skrefum eins og að skilja, ígrunda og næra minna ess nemenda í námi og kennslu. Eins og Beghetto og Kaufman (2007) segja þá getur (minna ess) neisti sköpunargáfunnar auðveldlega slokknað sé honum ekki viðhaldið með réttum hætti. Það er reyndar kúnst að gera slíkt því nemendur geta orðið af nauðsynlegri endurgjöf á verk sín og þar með gefist upp eins og þeir sem fá of mikla og jafnvel ranga endurgjöf, og það getur allt eins sent þá á ranga braut.
Fagmenn í kennarastétt eru okkar helstu bandamenn þegar hér er komið við sögu. Ekki aðeins móta þeir og þróa viðunandi námsumhverfi fyrir börnin heldur vita þeir hvar og hvenær rétt er að stíga inn í nám barna og hvar halda skal sér til hlés. Góðir kennarar eru því nauðsynlegir í þróun menntakerfis sem leggur áherslu á getu nemenda til góðra verka fyrir sig og samfélagið. Það veitir nemendum ánægju og lífsfyllingu en ekki bara einhverja einkunn á blaði sem gerir hvað?
Kannski halda einhverjir að hér sé verið að tala um nauðsyn þess að skólakerfið framleiði snillinga á færibandi og láta þannig sköpunarþáttinn ryðja út bóklegu námi og jafnvel nauðsynlegum aga í skóla. Það er alls ekki svo. Skólakerfið þarf að sjálfsögðu að kenna nemendum táknkerfi menningar okkar eins og að lesa, skrifa og reikna en það þarf líka að reyna á vitsmuni nemenda með fjölbreyttari og heildstæðum hætti (e. holistic approach). Nám í Fab Lab smiðju er einn af slíkum óteljandi möguleikum en alls ekki eitthvað silfurskot í kennslufræðilegum skilningi. Hún er dæmi um möguleika okkar tíma á því að stíga út fyrir hefðbundna kennslu, samþætta námsgreinar, auka námsáhuga og getu nemenda til aðgerða.
Núna er nefnilega komið að því að hugsa út fyrir kassann því páfagaukurinn er fyrir löngu floginn burt!
Heimildir
Beghetto, Ronald A. og James C. Kaufman. (2007). Toward a broader conception of creativity: A case for “mini-c” creativity. Psychology of Aesthetics, Creativity, and the Arts, 1(2), 73–79.
Ingibjörg Jóhannsdóttir, Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Torfi Hjartarson. (2012). SKÖPUN: Grunnþáttur í menntun á öllum skólastigum. Mennta- og menningarmálaráðuneyti og námsgagnastofnun.
Jeffrey, B. og Craft, A. (2006). Creative Learning and Possibility Thinking. Í B. Jeffrey (ritstj.), Creative Learning Practices: European Experiences (bls. 47-62). Tufnell Press.
Robinson, K. og Aronica, Lou. (2016). Creative schools: The Grassroots Revolution That’s Transforming Education. Penguin Book