Í upphafi skólaársins 2018-2019

Þá fer sumarleyfi að ljúka og senn hefst nýtt skólaár, 2018-2019. Skrifstofa skólans opnaði 7. ágúst sl. og frístundarheimilið Bifröst sömuleiðis. Kennarar og aðrir starfsmenn koma til starfa 15. ágúst en starfsdagar standa þá til og með 21. ágúst.

Staðan á framkvæmdum við skólann er nokkuð góð þó ljóst sé að ekki verði nú allt fullklárað þegar skólasetning mun eiga sér stað 22. ágúst næstkomandi.

Lausar stofur við vesturenda skólans verða settar upp í næstu viku en því miður seinkaði afhendingu húsanna um 2 vikur. Ef allt gengur vel verða þær komnar í gagnið upp úr næstu mánaðarmótum. Við þurfum því að bjarga okkur með stofur í 1-2 vikur í upphafi skólaársins en það er sem betur fer ekki langur tími. Allt er þetta í vinnslu og viðkomandi nemendur og foreldrar munu fá fréttir af stöðunni innan skamms.

Vonir standa til að hægt verði að hefja kennslu í innigörðunum svokölluðu strax á fyrsta degi skólaársins. Framkvæmdir við þá ganga nokkuð vel en væntanlega þarf að gera ráð fyrir einhverju raski á skólastarfinu í þessum rýmum fyrstu dagana. Sem dæmi hefur mikil vinna farið í lagningu loftræstikerfis í alla álmuna og til vitnis um það má sjá tvö ný smáhýsi sem risið hafa á þaki vesturálmu Sólvalla, fyrir utan glerpýramídana. Þessi þakhús hýsa vélarnar fyrir loftræstikerfið. Stofa 13 í sömu álmu hefur verið endurnýjuð og lítur orðið mjög vel út. Eins er nýtt hjúkrunarherbergi svo gott sem frágengið og nýjar nemendainnréttingar í heimilisfræðistofu eru að verða klárar með nýjum tækjum.

Við erum því full tilhlökkunar að taka í notkun vesturálmu skólans sem gengur satt best að segja í endurnýjun lífdaga þegar framkvæmdum lýkur.

Við minnum á að skólinn sér um innkaup á nauðsynlegum námsgögnum fyrir nemendur í öllum árgöngum (skriffæri, litir, stílabækur, reiknivélar o.þ.h.) líkt og gert var á síðasta skólaári.

Sjáumst 22. ágúst.

Mynd: Vallaskóli 2018 (HSG).
Mynd: Vallaskóli 2018 (HSG). Hér má sjá glitta í annan glerpýramídann og í annað af tveimur loftræsihúsunum.
Mynd: Vallaskóli 2018 (HSG). Hér sjáum við stöplana sem verða undir lausu stofunum við vesturenda Sólvalla. Alls verða þarna 3 kennslustofur með gangi sem mun tengjast vesturálmunni.
Mynd: Vallaskóli 2018 (HSG).