Hundur í óskilum í einum af Bókabæjunum austanfjalls – Selfossi

Höfundamiðstöð RSÍ býður upp á metnaðarfulla bókmenntadagskrá fyrir grunnskóla landsins í ár. Það var hljómsveitin Hundar í óskilum (Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson) sem buðu að þessu sinni nemendum í 7.-10. bekk í Vallaskóla upp á Halldór Laxness á hundavaði.

 
Eins og segir í bæklingi Höfundamiðstöðvar þá fær Halldór Laxness sérstakan sess í bókmenntadagskránni, en í ár eru liðin 60 ár frá því hann hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels. Að sama skapi er bókmenntadagskránni ætlað að ýta undir læsi almennt enda hefur mikil umræða átt sér stað um það í samfélaginu. Hundar í óskilum eru skemmtileg hundspott og þeim tókst með upplífgandi og jákvæðum hætti að þræða sig í gegnum flest verk Laxness, í tali og tónum, á rétt um 40 mínútum. Geri aðrir betur.
 
Nemendur höfðu gaman að þessari skemmtun og voru prýðis áheyrendur. Heimsókn hundanna er frábær upptaktur fyrir komandi lestrarvertíð í 7. bekk en 16. nóvember hefst undirbúningur Stóru upplestrarkeppninnar. Eins og flestir vita þá er 16. nóvember dagur íslenskrar tungu og afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar.
 
Áfram lestur! (ÞHG).