Flott lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á svæði Vallaskóla var haldin í Sunnulækjarskóla 29. mars sl. Hrund Harðardóttir kennsluráðgjafi hjá Skólaþjónustu Árborgar og Kolbrún Sigþórsdóttir kennsluráðgjafi hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþing höfðu umsjón með veglegri dagskrá.

Fulltrúar Vallaskóla voru: Thelma Lind Sigurðardóttir 7. HB, Lingný Lára Lingþórsdóttir 7. KHM, Svanlaug Halla Baldursdóttir 7. KHM og Óli Þorbjörn Guðbjartsson 7. HST (varamaður). Þessir krakkar stóðu sig frábærlega en svo fór að Thelma Lind Sigurðardóttir lenti í 3. sæti. Óskum við henni innilega til hamingju með glæsilegan árangur. Nemendur úr Grunnskóla Þorlákshafnar lentu í 1. og 2. sæti og óskum við þeim einnig innilega til hamingju.

Karitas Harpa Davíðsdóttir söngkona flutti ávarp, virkilega góða hugvekju. Kjarninn í ávarpi hennar var sá að það kostar þrautseigju og æfingu að ná langt í lífinu. Þó á móti blási þá á maður aldrei að gefast upp á draumum sínum eða markmiðum. Þess má geta að Karitas Harpa var nemandi í Vallaskóla fyrir ekki svo margt löngu síðan.

Jón Þórarinn Þorsteinsson nemandi í 8. bekk Vallaskóla og einn sigurvegara í Stóru upplestrarkeppninnar frá því í fyrra kynnti rithöfund keppninnar í ár, Andra Snæ Magnason. Því næst lásu þátttakendur sögubrot úr bók Andra, Blái hnötturinn. Að auki lásu þeir upp ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur. Dómarar keppninnar höfðu á orði að ljóðaflutningur þátttakenda hafi þótt afburða góður.

Nemendur og kennarar Tónlistarskóla Árnesinga fluttu nokkur lög og Sunnulækjarskóli bauð upp á hátíðarkaffi. Allir þátttakendur fengu afhenta bókagjöf frá Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn.

Hér má sjá nokkar myndir frá athöfninni. Við þökkum nágrönnum okkar og gestgjafa í ár, Sunnulækjarskóla, fyrir gestrisnina.

Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Allir þátttakendur lokahátíðarinnar en skólar sem tóku þátt voru: BES, Grunnskólinn í Þorlákshöfn, Sunnulækjarskóli, Vallaskóli og Grunnskólinn í Hveragerði.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Sigurvegarar lokahátíðar Stóru upplestrarkeppninnar. Thelma Lind er lengst til hægri á myndinni en til hliðar við hana standa tveir fulltrúar Grunnskólans í Þorlákshöfn.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Frá vinstri: Guðbjartur Ólason skólastjóri Vallaskóla, Thelma Lind Sigurðardóttir 7. HB og umsjónarkennari hennar, Hildur Bjargmundsdóttir.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Fulltrúar Vallaskóla, nemendur og kennarar. Frá vinstri: Kristrún Helga Marinósdóttir umsjónarkennari 7. KHM, Helena Steinþórsdóttir umsjónarkennari 7. HST, Lingný Lára Lingþórsdóttir nemandi í 7. KHM, Svanlaug Halla Baldursdóttir nemandi í 7. KHM. Thelma Lind Sigurðardóttir nemandi í 7. HB, Óli Þ. Guðbjartsson nemandi í 7. HST, Hildur Bjargmundsdóttir umsjónarkennari 7. HB og Birgir Aðalbjarnarson kennari og aðalþjálfari Stóru upplestrarkeppninar í Vallaskóla.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Jón Þórarinn 8. LV Vallaskóla.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Karitas Harpa Davíðsdóttir.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Myndir sem nemendur úr ýmsum skólum á Suðurlandi sendu inn í myndasamkeppni Stóru upplestrarkeppninnar.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Kaffihlaðborð í boði Sunnulækjarskóla.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga.
Mynd: Vallaskóli 2017 (ÞHG). Hrund Harðardóttir í pontu. Til hliðar má sjá upplesara skólanna en einnig glittir í einn dómaranna neðst til hægri.