Dagur læsis

Í dag, 8. september, er alþjóðlegur dagur læsis. Á alþjóðlegum degi læsis eru ungir og aldnir lesendur vefsíðu Vallaskóla hvattir til að gera sér dagamun og leggja sérstaka áherslu á lestur.

Árið 1965 helguðu Sameinuðu þjóðirnar þennan dag málefnum læsis. Læsi hefur verið skilgreint sem:


LESTUR – HLUSTUN – TAL – RITUN


Á degi læsis er fólk, hvar sem er í heiminum, hvatt til þess að skipuleggja læsisviðburði. Það má gera með því að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða nota tungumálið á annan hátt til ánægjulegra samskipta.


Upphaf núverandi lestrarstefnu Vallaskóla, sem Þórdís Kristjánsdóttir sérkennari hafði veg og vanda af, er þannig: „Lestur er undirstaða alls bóknáms og gera þarf íslenskukennslunni, ástkæra ylhýra málinu, eins góð skil og kostur er.”


Lestrarstefnuna má lesa hér.


Mikilvægt er að hvetja börn og unglinga til lesturs og kenna þeim að njóta góðra bóka. Besti undirbúningurinn fyrir lestrarnám ungra barna er að foreldri eða einhver vel læs lesi reglulega fyrir þau. Þannig eykst málvitund og orðaforði, þjálfun einbeitingar og hlustunar ásamt því að örva sköpunargáfu og hugmyndaflug. Þó að börn séu farin að lesa auðveldan texta á að halda áfram að lesa fyrir þau efni sem hæfir þroska þeirra og vitsmunalegri getu þar til að þau hafa sjálf náð leikni í að lesa texta við hæfi.