26. september 2013 Fólk á norðlægum slóðum þarf D-vítamín úr fæðu

D-vítamín myndast í húðinn fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar eða sólarlampa. Hægt er að fá nægilegt D-vítamín með því að vera úti í sól með bert andlit og hendur í stuttan tíma á dag að sumri til að D-vítamín myndist í húðinni. Því er öllum ráðlagt að taka D-vítamín aukalega að vetri til, t.d. þorskalýsi eða lýsisbelgi. Þeir, sem eru lítið úti við á sumri, t.d. aldraðir og ungbörn, þurfa aukaskammt af D-vítamíni allt árið.

Lýsið er helsti D-vítamíngjafinn

D-vítamín er í fáum fæðutegundum en lýsi og feitur fiskur eru þær fæðutegundir sem hafa mest af D-vítamíni. Þrátt fyrir að tiltölulega fáir taki lýsi reglulega er það helsti D-vítamíngjafi Íslendinga. Auk þess er neysla fjölómettaðra fitusýra almennt lítil nema lýsi sé hluti fæðunnar. Nokkurt magn D-vítamíns er í eggjarauðu og eins eru nokkrar tegundir drykkjarmjólkur D-vítamínbættar. Miðað við hæfilegan dagskammt af mjólkurmat nægir mjólkin þó ekki ein og sér til að fullnægja D-vítamínþörfinni.

D-vítamín er mikilvægt fyrir uppbyggingu beina

D-vítamín gegnir meðal annars mikilvægu hlutverki í kalkbúskap líkamans og er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina. D-vítamín örvar frásog kalks í meltingarvegi og stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóði. Ný íslensk rannsókn frá árinu 2005 sýnir að það skiptir meira máli fyrir kalkbúskap líkamans að fá nægilegt magn af D-vítamíni heldur en að auka kalkskammtinn umfram ráðlagri dagskammt.

Ein teskeið af þorskalýsi er nóg fyrir flesta

Þar sem D-vítamín er fituleysið og safnast upp í líkamanum geta stórir skammtar verið skaðlegir. Ein teskeið af þorskalýsi (5 ml) veitir ráðlagðan dagskammt af D-vítamíni fyrir börn og fullorðna að 60 ára aldri. Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni er heldur hærri fyrir þá sem eru komnir yfir sextugt. Athugið að ufsalýsi er ekki ráðlagt þar sem það inniheldur margfaldan ráðlagðan dagskammt af A-vítamíni en stórir skammtar af A-vítamíni geta verið skaðlegir vegna eituráhrifa.

Stýrirhópur Heilsueflandi skóla í Vallaskóla.