Tveir fulltrúar Samtakanna78 fluttu athyglisvert fræðsluerindi fyrir starfsmenn Vallaskóla fyrir stuttu. Þeir höfðu þá nýlokið fræðslu fyrir nemendur á unglingastigi.
Í erindi fulltrúanna kom fram að í öllum skólum eru börn sem tengjast samkynhneigð, tvíkynhneigð eða transfólki (transgender). Það geta verið systkini, frændfólk, börn hinsegin foreldra (en þeim fer ört fjölgandi í grunnskólum landsins) osfrv. Það skiptir því miklu máli hvernig við tölum um kynhneigð/kynferði/kynvitund eða kyngervi, bæði í skólanum sem annarsstaðar. Og við eigum að tala fordómalaust.
,,Mér finnst að það eigi að tala um þetta á jákvæðum nótum bara strax í sex ára bekk. Það myndi auðvelda lífið fyrir mörgum“, segir 18 ára einstaklingur. Að mörgu leyti er það rétt. Á fyrstu árum skólagöngunnar er ekkert óeðlilegt við það þó nemendur séu óvissir með kynvitund sína (upplifun á eigin kyni og hvaða kyni maður samsamar sig). Því er nauðsynlegt að slá ekki einhverju föstu í umræðunni því gera má ráð fyrir að pælingar um kynvitund, hneigð osfrv., komist í fastari skorður þegar nær dregur kynþroska.
Í þessu samhengi er líka mikilvægt að ræða um alls konar fjölskylduform við nemendur, ekki síst yngstu börnin. Það slær á fordóma og eflir nemendur í umræðu um mannréttindi og jafnréttismál. Umræða um ólík fjölskylduform á aldrei að vera feimnismál.
Hægt er að nálgast meiri upplýsingar á m.a. heimasíðu Samtakanna78.