Kæru fjölskyldur.
(Bréfið er þýtt á pólsku og ensku).
Komiði öll sæl og blessuð.
Í þessu bréfi fjöllum við um fjögur atriði:
1. Framhald sóttvarnaaðgerða frá 2. desember til og með 9. desember 2020.
2. Fræðslumyndband um Smiðjur á unglingastigi.
3. Nýtt útlit heimasíðu Vallaskóla.
4. Kahoot-spurningakeppni grunnskóla Árborgar – í boði foreldrafélaga grunnskólanna.
Nánar:
1. Ríkisstjórnin samþykkti í gær tillögur sóttvarnalæknis um óbreyttar aðgerðir til og með 9. desember. Það þýðir að skólastarfið verður með sama sniði og verið hefur síðustu daga. Eftir 9. desember munum við upplýsa ykkur frekar um framhaldið, t.d. um dagskrá litlu jóla, föstudaginn 18. desember.
2. Fyrir stuttu útbjó Leifur Viðarsson kennari á unglingastigi Vallaskóla um 15 mínútna fræðslumyndband um notkun á Google Classroom. Í myndbandinu fer hann yfir hvernig aðgangur nemenda virkar í þessu forriti en einnig fjallar hann um Smiðjur á unglingastigi, verklagið við vinnslu og skil á verkefnum nemenda. Myndbandið er vistað á Youtube og hægt er að nálgast það hér https://www.youtube.com/watch?v=35G-SnCjsNE&feature=youtu.be&ab_channel=Vallask%C3%B3liSelfossi . Eins má lesa sér til um smiðjur á unglingastigi á heimasíðu Vallaskóla.
3. Í gær, á fullveldisdegi Íslendinga, settum við í loftið uppfærða heimasíðu skólans. Um fjórðu útgáfu heimasíðunnar er að ræða frá upphafi. Sjá betur www.vallaskoli.is .
4. Fimmtudagskvöldið nk. 3. desember ætlar tvíeykið Már og Leifur að halda Kahoot spurningakeppni fyrir grunnskóla Árborgar. Keppnin verður tvískipt og verður miðstig (5.- 7. bekkur) kl. 19:30 og elsta stig (8.-10. bekkur) kl. 20:30. Veglegir vinningar í boði fyrir fyrstu þrjú sætin. Keppnin er í boði foreldrafélaga grunnskólanna í Árborg og hvetjum við alla til þess að taka þátt ?. Gott er að vera búin að ná í Kahoot appið en það er notað til þess að senda inn svör. Eins er gott að hafa tvö tæki, eitt fyrir útsendinguna og annað til þess að svara. Útsendingin verður svo í beinni á Youtube en þar verða leikreglur útskýrðar nánar.
Linkur á keppnina: https://www.youtube.com/channel/UCuBTCbxFjFBfXsxoWTKGZ4w
Að lokum minnum við alltaf á þessi góðu skilaboð:
Ágætt er að hafa í huga að ekki er ætlast til að nemendur sem ekki deila saman rými í skólanum séu að hittast eftir að skóla lýkur. Sjá betur hér (https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item40636/Samkomutakmarkanir-og-b%C3%B6rn-2.10.2020.pdf) um Samkomutakmarkanir og börn.
Gætið að smitgát öllum stundum og munið að við erum öll almannavarnir.
Kær kveðja.
Starfsfólk Vallaskóla.