Fyrir stuttu fengum við í 3. bekk skemmtilega heimsókn frá Elfu Íshólm sem vinnur á Einkaleyfastofu. Hún kynnti fyrir okkur hugverk sem eru hugmyndir eða hönnun sem fólk á, til dæmis tónlist, bækur, vörumerki, nýtt útlit á síma eða uppfinning.
Hún sýndi okkur ýmis vörumerki sem öll börnin þekktu, eins og Kellogg´s, sjónvarpsmerkið, Lýsi og Coca Cola og uppfinningar eins og rennilás, öryggisbelti, snjóbretti og legó-kubba.
Einkaleyfistofan skráir vörumerki, hugmyndir og hönnun uppfinningamanna og veitir þeim einkaleyfi á uppfinningum sínum. Sá sem á einkaleyfi getur bannað öðrum að framleiða eða selja uppfinninguna en þeir verða að sýna öllum uppfinninguna sína.
Nemendur voru mjög áhugasamir og spurðu mikið. Eftir heimsóknina var mikið hugsað, mörg skemmtileg hugverk komu upp á teikniborðið og eitt var sett í framkvæmd (sjá myndir í myndaalbúmi). Alveg greinilegt að í hópnum leynast margir hugverksmenn.
Á mynd sjáum við uppfinningamanninn Tryggva Þórisson. Hann fann upp á þessari vél, sem á myndinni sést, eftir fyrirlestur Elfu. Hann teiknaði mynd af vélinni í skólanum, fór heim, smíðaði og kom svo með hana til að sýna okkur í skólanum. Vel af sér vikið!
Við þökkum Elfu kærlega fyrir áhugaverða og fræðandi heimsókn.