Tóbaksvarnir – fræðsla

Í dag fengu nemendur í 7. og 9. bekk fræðslu um tóbaksvarnir. Það var Jóhanna S. Kristjánsdóttir hjá Lýðheilsustöð sem stóð fyrir fræðslunni.

Jóhanna fór vel yfir skaðsemi og virkni tóbaks, hvort sem um sígarrettu- eða munntóbaksnotkun væri að ræða. Í máli hennar kom einnig fram að það væri í raun magnað hve langt tóbaksframleiðendur seilast til að fá m.a. ungt fólk til að nota tóbak og gera það háð því. Nefna má áhrif kvikmynda. Til er rannsókn þar sem nýlegar kvikmyndir voru skoðaðar og talið hversu oft tóbak birtist í myndinni. Kemur á óvart hve oft það sést – jafnvel í barnaefni.

Jóhanna sagði nemendum m.a. frá ungum manni sem væri svo háður munntóbaki að hann notaði það 24 tíma á dag! Og svæfi hann ekki með það þá vaknaði hann í svitakófi um miðja nótt til að svala nikótínþörfinni. Svefninn færi því annars til spillis, að við tölum ekki um hnignandi lífsgæði viðkomandi.

Ótalið eru allskonar skaðlegar verkanir tóbaks, eins og getuleysi, krabbamein, tannskemmdir, lélega súrefnisupptöku ofl. Og hvað skyldi nú vera mörg eiturefni í einni sígarrettu? Jú, ekki nema um 7.000 talsins! Það er eitthvað færra í munntóbaki en það er þó síst betra. Skammtur af munntóbaki er á við fjórar sígarrettur að styrkleika hvað nikótín varðar. Þá eigum við eftir að ræða um saltkristallanna í munntóbakinu sem skaða tannholdið og gera göt á það.

Jóhanna ræddi ekki bara við nemendur. Hún fræddi einnig kennara á samverutíma þeirra í dag.
Nánari upplýsingar má m.a. fá á www.2lydheilsustod.is