Rithöfundurinn og fyrirlesarinn Þorgrímur Þráinsson heimsótti okkur í Vallaskóla á síðasta vetrardegi. Hann var með fyrirlestur fyrir krakkana í 10. bekk sem bar yfirskriftina ,,Eltu drauminn þinn“. Í fyrirlestrinum lagði hann megináherslu á hversu mikilvægt það sé fyrir hvern og einn að setja sér markmið, hafa trú á sjálfum sér, aðferðir til að marka sér leiðina að markmiðunum og að skipuleggja sig í samræmi við það. Krakkarnir fengu verkefnahefti með leiðbeiningum um markmiðssetningu. Í heftið geta þau fyllt út markmiðssetningu eftir þeim leiðum sem hann kynnti.
Þorgrímur náði vel til krakkanna og það voru glaðir krakkar sem héldu út í vorið að fyrirlestri loknum og vonandi tilbúnir að stíga út úr sínum þægindaramma. Allir voru mjög ánægðir með þessa heimsókn og þökkum við Þorgrími fyrir skemmtilega og gagnlega heimsókn.