Stöðuuppfærsla

Komiði sæl kæru fjölskyldur nemendur í Vallaskóla (bréfið verður einnig þýtt yfir á ensku og pólsku).

Stöðuuppfærsla v. COVID-19 í Vallaskóla.

Í samtali okkar við lækni hjá HSu kemur fram að allir nemendur, umsjónarkennari og stuðningsfulltrúi í þeim 7. bekk sem nú er í sóttkví fari í sýnatöku. Sú sýnataka hefur nú þegar leitt fram tvö ný smit í viðkomandi bekk eins og áður hefur komið fram (alls 3 smit). Smitrakningateymi sóttvarnalæknis vinnur hörðum höndum að því að finna upptökin að smitunum en nánari upplýsingar um það liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Vert er að taka fram að þeir sem eru að hugleiða hvort þeir eigi að fara í sýnatöku eigi ekki að hika við að óska eftir því. Þá er einfaldast að hafa samband í síma 1700 eða beint við HSu. Fyrir þessu er lágur þröskuldur að sögn læknis á HSu.

Fulltrúar heilsugæslu og rakningarteymisins hafa sagt að þar sem smit hafi komið upp í sóttkví eigi ekki að breyta neinu í viðbrögðum skólans sem stendur. Skólastjórar munu fylgja þeim leiðbeiningum. Staðan er því tekin frá degi til dags. Eins fylgjast fjölmiðlar grannt með stöðu mála.

Við vonum að það takist að ná utan um þessa sýkingu en það brýnir okkur í smitgáttinni; halda fjarlægð, þvo og spritta hendur vel. Við minnum líka á upphaflegu tilkynningu okkar í skólabyrjun að foreldrar sem koma inn í skólabyggingar á skólatíma þurfa að vera með grímu og hanska. Enn fremur að senda nemendur ekki í skólann ef þeir sýna flensueinkenni.

Í þessu erum við öll almannavarnir. Hugum vel að okkur sjálfum og okkar nánustu. Góð hreyfing og hvíld eiga vel við á þessum tímum.

Við munum veita ykkur upplýsingar um stöðu mála eins og þær berast okkur.

Með kærri kveðju,

Guðbjartur Ólason
Vallaskóli