Sóttvarnaaðgerðir í Vallaskóla frá og með 5. október til og með 14. október

 

Kæru fjölskyldur nemenda í Vallaskóla. (Þýðing þessa bréfs á ensku og pólsku verður send mánudaginn 5. október). Bréfið var sent í tölvupósti.

Eins og flestir vita þá kom upp C19-smit í Sunnulækjarskóla fyrir helgi með þeim afleiðingum að um 600 nemendur voru sendir í sóttkví, ásamt 50 starfsmönnum skólans. 

Ljóst er að í svo nátengdu samfélagi sem við búum í þá er alltaf hætta á krosssmiti og að við fáum upp hópsýkingu í skólanum okkar. Þess vegna hafa skólastjórnendur Vallaskóla ákveðið að skólinn fari af stigi sóttvarnasvæða yfir í sóttvarnahólf með tilheyrandi lokunum og breytingum á skólastarfi. 

Verja þarf grunnþjónustuna og þá sem eru með viðkvæma heilsu. Einblínt verður á að halda sem eðlilegustu skólastarfi í yngstu árgöngunum.

Mun þessi ráðstöfun gilda frá og með mánudeginum 4. október til og með miðvikudagsins 14. október. 

Eftir haustfrí gerum við ráð fyrir að fara aftur niður á stig sóttvarnasvæða og eðlilegt skólastarf.

Sóttvarnahólfin

Sóttvarnahólfin eru 5 talsins með tilheyrandi árgöngum og skipulagi. Ath. að starfsfólk og nemendur mega ekki fara á milli hólfa enda eru hólfin lokuð.

Foreldrar og aðrir utanaðkomandi mega ekki koma inn í skólabyggingarnar á meðan þessi ráðstöfun gildir. Vinsamlegast hafið samband símleiðis eða í tölvupósti.

  1. Valhöll/Bifröst, 1.-2. bekkur. Yfirmaður í hólfi er Guðrún Jóhannsdóttir deildarstjóri. Nemendur gangi inn um inngang í Valhöll og Bifröst eins og verið hefur.
  2. Ú4 og Ú5, 3. bekkur. Yfirmaður í hólfi er Guðrún Jóhannsdóttir deildarstjóri. Nemendur nota sérinnganga við Ú4 og Ú5, þ.e. koma ekki inn um vesturinnganga á Sólvöllum.
  3. Vesturgangur, 4., 5. og 6. bekkur. Nemendur ganga inn um vesturinnganga. Yfirmenn á svæði eru Hólmfríður Sigrún Gylfadóttir og Anna Linda Sigurðardóttir deildarstjórar.
  4. Miðgangur. 7. bekkur. Yfirmaður í hólfi er Hólmfríður Sigrún Gylfadóttir deildarstjóri. Nemendur nota inngang í aðalanddyri. Norðurinngangur við eldhús verður lokaður.
  5. Austurrými. 8.-10. bekkur. Yfirmaður í hólfi er Guðmundur Sigmarsson deildarstjóri. Gengið er inn um inngang við Engjaveg.

Frístundaheimilið Bifröst verður opið með venjubundnum hætti.

Skólastarfið í hverju hólfi

Hér verður farið yfir hvenær skóli byrjar og hættir í hverju hólfi, ásamt skipulagi matartíma og frímínútna. 

  • Skólahúsnæðið opnar kl. 7:45 við alla innganga.
  • Þjónusta hjúkrunarfræðings heldur sér.
  • Kennsla í tónlistarskóla í kjallara á Sólvöllum heldur sér.
  • Hnykkt verður á aukinn ræstingu og sótthreinsun.
  • Íþrótta- og sundkennsla fellur alveg niður.
  • Kennsla í pólsku, fileyppísku og arabísku fellur niður.
  • Sótthreinsað verður á milli þeirra hópa sem nota mötuneytið.
  1. Valhöll/Bifröst, 1.-2. bekkur: Kennt skv. stundaskrá frá kl. 8:10-12:40. Tónmennt heldur sér en að öðru leyti falla list- og verkgreinar niður. Matur verður sendur frá eldhúsi yfir í Bifröst þar sem nemendur og starfsfólk matast frá kl. 12:40.
  2. Ú4 og Ú5, 3. bekkur: Kennt skv. stundaskrá frá kl. 8:10-12:50. Tónmennt heldur sér en að öðru leyti falla list- og verkgreinar niður. Kl. 12:50 fer 3. bekkur í mat í mötuneytinu ásamt starfsfólki í 3. bekk, gengur inn um norðurinngang í mötuneyti. 
  3. Vesturgangur, 4., 5. og 6. bekkur. Kennt skv. stundaskrá frá kl. 8:10-12:30. Tónmennt fellur niður en aðrar list- og verkgreinar halda sér. Nemendur og starfsfólk í vesturgangi fá matarhlé frá kl. 12:30-12:50 í mötuneytinu. Ganga skal í gegnum aðalanddyri. Nemendur fara heim að hádegisverði loknum. Gert er ráð fyrir fjarnámi eftir hádegið í 5. og 6. bekk (nánar síðar).
  4. Miðgangur, 7. bekkur. Kennt skv. stundaskrá frá kl. 8:10-11:50. Eftir kl. 11:50 fara nemendur beint heim (enginn matur sem sagt). Ekki verður rukkað fyrir hádegismat. Fjarnám eftir hádegi frá c.a. 12:40-13:40.
  5. Austurrými, 8.-10. bekkur. Kennt skv. stundaskrá frá kl. 8:10-11:30. Eftir kl. 11:30 fara nemendur beint heim (enginn matur sem sagt). Ekki verður rukkað fyrir hádegismat. Fjarnám frá kl. 12:20-13:40.

Enn og aftur brýnum við alla til þess að gæta hreinlætis og sýna aðgát. Munið að á www.covid.is er að finna mikið af gagnlegum og réttum upplýsingum um COVID-19.

Með kærri kveðju.

Skólastjórnendur Vallaskóla.