Nýjustu vendingar í COVID-19 í Vallaskóla

Komiði sæl enn og aftur kæru fjölskyldur (bréfið verður þýtt á ensku og pólsku).

Nýjustu vendingar í COVID-19 í Vallaskóla.

Nú síðdegis (kl. 15:00) hafði fulltrúi rakningarteymis sóttvarnalæknis samband við skólastjórnendur. Í ljósi þróunar mála var ákveðið að allir nemendur í 7. bekk skólans (þrjár bekkjardeildir alls) færu í sóttkví. Starfsmenn sem koma að árganginum voru settir í svokallaða úrvinnslusóttkví.

Í síðasta bréfi skólastjóra var nefnt að smitin væru þrjú en eitt smit hefur bæst við síðan þá og er það í þeim 7. bekk sem upphaflega fór í sóttkví.

Í framhaldi af samtali skólastjórnenda við fulltrúa smitrakningarteymis höfðu þeir samband við foreldra/forráðamenn í hinum tveimur bekkjunum í 7. bekk og upplýstu þá um ákvörðun um sóttkví. Lauk þeirri upplýsingagjöf um kl. 18:00. Skólastjórar eru þakklátir foreldrum/forráðamönnum sem undantekningarlaust tóku fréttunum vel. Fulltrúar smitrakningarteymisins munu síðan hafa samband við alla hluteigandi og reiknað er með að allir fari í skimun.

Ljóst er að skólastarf í 7. bekk mun raskast en það verður bætt upp að hluta til með fjarnámi. Skólastjórar vonast einnig til að röskunin hafi sem minnst áhrif á töku samræmdra könnunarprófa í þessum árgangi sem munu fara fram dagana 24. og 25. september. Þar treystum við á öflugt og gott samstarf við heimilin.

Sem fyrr vonumst við að þetta skref í aðgerðum dagsins dugi til að hemja framgang veirunnar í árganginum. Frekari upplýsingar um stöðu mála koma síðar.

Með kærri kveðju,

Guðbjartur Ólason, skólastjóri.