Þriðjudaginn 15. september fóru allir nemendur í 3. bekk í Vallaskóla í menningar- og fjöruferð á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ferðin var farin í tengslum við námsefni um hafið.
Nemendur heimsóttu Húsið, sem er byggðarsafn Árnesinga, og Sjóminjasafnið á Eyrarbakka. Þar fengu þau leiðsögn starfsfólks um söfnin og skoðuðu þá muni sem þar eru til sýnis. Einnig fengu nemendur að fara í gamalt fjárhús í bakgarði Hússins þar sem þeim stóð til boða að föndra sjávarlífverur úr endurvinnanlegu efni. Þessi listaverk nemenda koma til með að vera þar til sýnis fyrir gesti og gangandi.
Ferðin endaði svo í Stokkseyrarfjöru þar sem nemendur rannsökuðu umhverfið, leystu verkefni og að sjálfsögðu léku sér.