Ályktun Umboðsmanns barna frá 13. september 2019, birt með leyfi:
Umboðsmaður barna telur mikilvægt að virða sjálfstæðan rétt barna á öllum aldri til þess að leita eftir ráðgjöf og aðstoð frá fagaðilum án samþykkis foreldra. Börn eiga jafnframt sjálfstæðan rétt til trúnaðar af hálfu fagaðila þó með þeim takmörkunum sem leiðir af tilkynningarskyldu þeirra til barnaverndar. Umboðsmaður barna gerir því engar athugasemdir við að börn geti að eigin frumkvæði óskað eftir viðtali við námsráðgjafa og eigi sjálfstæðan rétt til þess að trúnaður ríki um það samtal, nema að fram komi upplýsingar, sem falla undir ákvæði barnaverndarlaga um tilkynningarskyldu fagaðila sem vinna með börnum eins og áður sagði. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna sem veitir leiðbeiningar um túlkun Barnasáttmálans hefur áréttað mikilvægi þess að börnum sé tryggður aðgangur að ráðgjöf sérfræðinga, án vitneskju foreldra, ef það er talið barni fyrir bestu.
Náms- og starfsráðgjafi má hitta barn í skólanum sem hann vinnur í án vitundar foreldra s.s. þegar verið er að taka viðtöl vegna samskiptavanda og/eða könnun í eineltismálum. Ef viðkomandi námsráðgjafi er með þessu, í kjölfar skimunar, að leita til barna sem vísbendingar eru um að þjáist af vanlíðan eða kvíða er sjálfsagt og eðlilegt að viðkomandi fagaðili bjóði barni viðtöl og þjónustu vegna vanlíðunar, án þess að upplýsa foreldra um það, ef það er talið barni fyrir bestu og barnið óskar eftir því.
Ef hins vegar er um að ræða ágreining og mál þar sem barn hefur verið ásakað um óviðeigandi hegðun, samskipti eða einelti, þá telur umboðsmaður barna eðlilegt að slík viðtöl fari ekki fram án þess að foreldrar hafi verið upplýstir um það og þeim gefið tækifæri til þess að gæta hagsmuna barna sinna.