Forvarnadagurinn var haldinn í áttunda sinn miðvikudaginn 9. október sl. Hann er haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarélaga, íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Lyfjafyrirtækið Actavis styrkir verkefnið.
Til hamingju unglingar í 8., 9. og 10. bekk!
Það er gleðiefni að segja frá því að átak eins og forvarnadagurinn skilar árangri. Það sýnir m.a. nýjasta skýrsla Rannsókna og greininga. ,,Ísland mælist nú með lægstu tíðni allra Evrópulanda yfir reykingar og áfengisneyslu meðal unglinga og er í hópi þeirra lægstu yfir notkun annarra efna. Þá er Ísland undir tíðni Bandaríkjanna í öllum tilfellum en þar hefur tíðni neys[u] áfengis og tóbaks í þessum aldurshópi einnig lækkað mikið síðastliðin[n] áratug.“ (Vímuefnanotkun unglinga í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi – Þróun frá 1997 til 2013, R&G 2013 bls. 26). Þetta er ekki sjálfgefinn árangur heldur samstillt átak allra sem að ungmennum koma, en ekki síst flott viðhorf ungmennanna sjálfra.
Skemmtilegt verkefni
Sem fyrr voru það nemendur í 9. bekk um allt land sem tóku þátt í dagskrá dagsins en dagskráin samanstendur af ávarpi verkefnisstjóra, ávarpi forseta Íslands, hópavinnu, sýningu á forvarnamyndbandi o.fl. Að auki geta nemendur tekið þátt í netratleik og unnið glæsilega vinninga ef heppnin er með (sjá nánar á heimasíðu forvarnadagsins, forvarnadagur.is). Þess má geta að í tvígang hafa nemendur í Vallaskóla dottið í lukkupottinn í netratleik forvarnadagsins.
Hvert ár án áfengis eða annarra ávanabindandi efna skiptir máli! Það er töff og það verður að vera töff!
Í hópavinnunni ræða nemendur um ýmis atriði sem gagnast í forvarnabaráttu og snúa m.a. að samveru með fjölskyldunni, íþróttum og tómstundum og að hvert ár án áfengis eða fíkniefna skiptir máli. Upplýsingarnar úr hópavinnunni eru svo notaðar í skýrslunni ,,Þetta vilja þau“, en þar er varpað ljósi á helstu þættina er skipta máli í forvörnum, og þá ekki síst þætti sem skipta máli varðandi það að líða vel. Foreldrum er bent á að skoða skýrslurnar á forvarnadagur.is.
Grunnskólanemendur standa sig frábærlega en hvað gerist eftir að grunnskóla lýkur?
Á heimasíðu forvarnadagsins segir að ,,Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknir fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.“
En það er vá fyrir dyrum. Aftur skal vitnað í skýrslu Rannsóknar og greininga en þar kemur fram athyglisverð staðreynd. Niðurstöður R&G leiða ,,í ljós grundvallarbreytingu á viðhorfum foreldra til alvarleika áfengisneyslu meðal unglinga í efsta bekk grunnskóla og sömu unglinga örfáum mánuðum síðar, á fyrsta ári í framhaldsskóla. Þannig segja hátt í 70% unglinga að vori í 10. bekk að foreldrar þeirra myndu bregðast mjög illa við ef þeir neyttu áfengis svo þeir yrðu ölvaðir, en aðeins ríflega 34% unglinga svara því þannig til nokkrum mánuðum síðar, eftir að þau hafa hafið nám í framhaldsskóla.“ (Rannsókn á vímuefnanotkun framhaldsskólanema á Íslandi 2013 – Samanburður mælinga á vímuefnanotkun framhaldsskólanema á Íslandi 2000-2013, R&G 2013, bls. 6). Þetta er umhugsunarvert kæru foreldrar!
Börnin okkar eldast. Glutrum ekki niður góðum árangri við það eitt. Átaks er þörf í forvörnum og eftirliti eftir að börnin verða 16 ára – allt er þetta spurning um rétt viðhorf og meðvitund hinna fullorðnu. Sjá nánar á forsíðu forvarnadagur.is.
Með kærri kveðju.
Verkefnisstjóri forvarnadagsins í Vallaskóla.
Þorvaldur H. Gunnarsson, deildarstjóri eldri deildar.