Dagana 23. og 24. apríl var haldinn vorskóli í Vallaskóla fyrir þau leikskólabörn sem munu hefja hér nám í 1. bekk haustið 2012. Að venju voru það kennarar og þroskaþjálfi í núverandi 1. bekk sem tóku á móti hópnum og voru með skipulagt skólastarf eftir hádegi þessa tvo daga. Leikskólabörnin komu í fylgd með leikskólakennurum og skiptust í 3 námshópa.
Viðfangsefnin sem krakkarnir fengust við voru af ýmsu tagi s.s. verkefnavinna, mál- og hreyfiþjálfun og útivera. Greinilegt var að viðfangsefnin höfðuðu vel til barnanna. Þau voru glöð og spennt fyrir því sem fram fór í skólanum.
Nú í maí er að auki boðið upp á styttri skólaheimsóknir leikskólabarna þar sem þau geta komið í heimsókn í skólann á skólatíma ásamt leikskólakennurum. Í þessum heimsóknum geta börnin litið inn og tekið þátt í almennum kennslustundum og einnig leikfimi, smíði og heimilisfræði.