Vinsemd fæðir vinsemd

…segir á einu plakatinu sem nemendur í 4. GMS færðu nemendum í 9. MA. Þetta er hverju orði sannara og átti vel við daginn í dag, 30. september, en nemendur á yngsta stigi kynntu októberdyggð skólans, vinsemd, og skelltu sér í föstudagsfjör.


Undirbúningurinn að föstudagsfjöri 30. september og kynning októberdyggðar hefur staðið yfir sl. mánuð. Nemendur í 1.-4. bekk, ásamt umsjónarkennurum og stuðningsfulltrúum þeirra, útbjuggu plaköt eða t.d. föndruðu blómvendi sem þeir fóru með í vinaheimsóknir til eldri nemenda og gáfu þeim. Síðan sungu krakkarnir lög fyrir skólafélaga sinna er fjölluðu um vináttu.

Vel var tekið á móti okkar yngri nemendum og þetta voru afar gefandi og skemmtilegar heimsóknir.

Á föstudagsfjöri, sem fram fór í íþróttasal, var sett upp hátíð. Deildarstjóri yngri deildar, Jóna Hannesardóttir, setti hátíðina og svo kom hver árgangur upp á svið. Nemendur sýndu leikþætti og sungu lög. Stóðu þeir sig frábærlega. Umfjöllunarefnið var sem fyrr – vinsemd. Foreldrar voru velkomnir og það var gaman að sjá hvað margir gátu gefið sér tíma til að mæta og fylgjast með.

Lengi lifi vinsemdin enda er hún ,,dýrmætust allra eðalsteina“.

Fleiri myndir má sjá í albúmi undir ,,Myndefni“.