Útivistartími og sund

Kæru foreldrar  

Núna 1.september tekur nýr útivistartími gildi sem segir til um að börn 12 ára og yngri eigi að vera kominn heim kl. 20.00 á kvöldin og börn 16 ára og yngri kl. 22:00. Undantekning frá þessu er eðlilega þegar foreldrar eru með barninu sínu og þegar barnið er á leið heim af viðurkenndum íþrótta- og/eða frístundaviðburði. Geta t.d. verið íþróttaæfingar, skóla- og/eða félagsmiðstöðvarviðburðir.  

Sundlaugar Árborgar verða að fylgja þessum ákvæðum í lögum líkt og aðrir og því er börnum 12 ára og yngri sem eru án foreldra/forráðamanns vísað upp úr sundlauginni kl. 19:30 svo þau hafi tíma til að komast heim fyrir kl.20:00. Þetta á því við núna í haust um börn fædd 2009 og síðar.  

Því miður hefur komið upp á hverju hausti að börn reyna að segja ósatt til um aldur, fari ekki að fyrirmælum og svari með ljótu orðbragði þegar þeim er bent á þessar reglur á kvöldin.   

Mig langar að biðja ykkur foreldra um að ræða þessa hluti við börnin ykkar og hversu mikilvægt það er að sýna skilning og virðingu í samskiptum. Markmiðið er að allir íbúar á öllum aldri komi sem oftast í sund en starfsfólk sundlaugarinnar semur ekki t.d. þessar umræddu útivistarreglur heldur þarf einfaldlega að framfylgja þeim og reynir að gera það eftir bestu getu.  

Það skal þó tekið fram að sé barn með foreldri/forráðamanni í sundlauginni þá er viðkomandi barni/börnum að sjálfsögðu ekki vísað uppúr enda mega börnin vera áfram ef foreldri er á svæðinu og getur eitt foreldri verið með ábyrgð á c.a. 3-4 börnum sem hafa náð 10 ára aldri. 

Með kærri kveðju og verið velkomin í sundlaugar Árborgar 

Bragi Bjarnason
deildastjóri frístunda- og menningardeildar