Guðrún Birna Kjartansdóttir í 3. IGU Vallaskóla var dregin út í lestrarleiknum Óvættaför. Leikurinn er hugsaður sem lestrarhvatning fyrir nemendur í 3.-5. bekk grunnskólanna. Guðrún Birna fékk nokkrar bækur í vinning sem verður gott fyrir hana að lesa í sumarfríinu.
Mikilvægi bóka og lesturs til framtíðar
Um leið og við óskum Guðrúnu Birnu til hamingju þá er vert að minna fjölskyldur á mikilvægi heimalesturs og að ýta undir mikilvægi bóka almennt. Í könnun Skólapúlsins fyrir skólaárið 2016-2017 (könnun sem tekin er í 6.-10. bekk á hverju skólaári) má sjá vísbendingar um minnkandi ánægju nemenda af lestri. Á það helst við um ánægju af því að ræða um bækur við aðra og að nemendum finnist það jafnvel tímasóun að lesa. Í könnuninni mætti enn fremur sjá fleiri nemendur finnast gaman að fara í bókabúð eða á bókasafn. Það munar um allt kæru foreldrar ef við ætlum að efla krakkana okkar í lestri. Því er ekki úr vegi að minna á Sumarlesturinn sem flest bókasöfn á landinu standa að og bókasafnið í Árborg er þar ekki undanskilið. Sumarlesturinn þar hófst 7. júní sl., sjá nánar á www.bokasafn.arborg.is eða á fésbók (Bókasafn Árborgar, Selfossi, Stokkseyri, Eyrarbakka).