Undirritun þjóðarsáttmála um læsi í Árborg

undirskrifUndirritun þjóðarsáttmála um læsi fór fram á Stokkseyri (BES) þriðjudaginn 15. september sl. Ásta Stefánsdóttir skrifaði undir sáttmálann fyrir hönd Árborgar og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir hönd menntamálayfirvalda. Einnig kom fulltrúi Heimilis og skóla ásamt sveitarstjórum og bæjarstjórum frá nokkrum nágrannasveitarfélögum til að undirrita sáttmálann.

Sveitarfélögin voru Bláskógabyggð, Flóahreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus og Grímsnes- og Grafningshreppur. Gylfi Jón Gylfason, verkefnastjóri á Menntamálastofnun, setti athöfnina og stýrði henni. Moira Dís Bichard, nemandi í Tónlistarskóla Árnesinga, lék lagið „Song of Storms.“

Mennta- og menningarmálaráðherra kom víða við í erindi sínu og ræddi um stefnu sína sem fram kemur í Hvítbók um umbætur í menntun. Ákveðið hefur verið að ráðuneytið og Menntamálastofnun beini kröftum sínum að því að auka lestrarfærni og læsi ungs fólks á Íslandi. Sveitarfélögin munu í samstarfi við menntamálayfirvöld vinna að því að a.m.k. 90% nemenda geti lesið sér til gagns árið 2018.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, flutti ávarp þar sem hún sagði m.a. frá bókabæjarverkefni Árborgar, Hveragerðis og Ölfuss og mögulegar tengingar þess við vinnu skólanna með lestur. Þá minnti hún á barnabókahátíð bókabæjanna sem verður haldin á Selfossi 18.−19. september nk. með veglegri dagskrá, þar sem börnum verður boðið að taka virkan þátt í skapa góðar minningar um bækur og lestur góðra bóka.

Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, kynnti stuttlega læsisverkefni leik- og grunnskóla í Árborg. Þessi verkefni eru að skila góðum árangri, svo sem með markvissri málörvun,  sögu- og samræðustundum í leikskólunum og góðri vinnu í kringum læsisskimanir í grunnskólunum. Nú er svo komið að læsisverkefni grunnskólanna virkar sem hvatning til góðrar læsisvinnu í öllum bekkjum skólanna og inni á heimilum nemenda. Margir líta nú á lestrarþjálfun inni í bekk sem gæðastund.

Undirritun þjóðarsáttmála um læsi var næst á dagskránni en fulltrúi hvers sveitarfélags kom upp og undirritaði sáttmálann ásamt mennta- og menningarmálaráðherra og Ingu Dóru Ragnarsdóttur, sem var fulltrúi Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra. Í kjölfar undirritunar var hún sett í Íslandslíkan sem hannað var í tilefni af þjóðarátakinu.

Þá flutti Ingó Veðurguð lagið „Það er gott að lesa“ eftir Bubba með þátttöku leikskóla- og grunnskólabarna og annarra gesta. Í augum barnanna var þessi dagskrárliður hápunktur athafnarinnar enda tókst flutningurinn afar vel. Eftir athöfnina voru kaffiveitingar í boði Árborgar og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.

http://www.arborg.is/undirritun-thjodarsattmala-um-laesi-i-arborg/