Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda við Vallaskóla.
Mig langar að minna foreldra/forráðamenn á mikilvægi þess að ræða við sín börn um umferðaröryggi og að við berum öll ábyrgð á að vanda okkur og fara varlega í umferðinni. Nú á haustdögum eru nemendur og starfsmenn duglegir að ganga og hjóla til vinnu og skóla og myndast því oft veruleg umferð við skólann, sérstaklega í upphafi skóladags. Mikilvægt er að nemendur séu vel sjáanlegir og þeir sem nota samgöngutæki á hjólum séu með öryggishjálma. Borið hefur á að þeir sem eru á rafskútum aki hratt um skólalóðina en slíkt getur verið verulega hættulegt, bæði þeim sem aka slíkum tækjum sem og annarri umferð. Við óskum eftir því að umræða sé tekin á heimilum um þessi mál. Mínar allra bestu kveðjur, Páll Sveinsson, skólastjóri.