Þemadagar og afmæli Vallaskóla

Kæru fjölskyldur nemenda í Vallaskóla.

Á morgun, miðvikudaginn 29. mars, hefjast þemadagar í Vallaskóla en þeir standa yfir dagana 29.-31. mars. Þemað er Vallaskóli í 20 ár.

Nemendur mæta eins og fyrr í skólann kl. 8:10 í heimastofur sínar alla þrjá dagana. Nemendur í 5.-10. árgangi ljúka skóladeginum um kl. 12:30. Nemendur í 1.- 4. árgangi ljúka deginum kl. 12:40, fyrir utan hádegishlé. Frístund er óbreytt fyrir þá sem þar eru skráðir.

Athugið! Gott væri ef nemendur gætu komið með nælonsokkabuxur og gamlar Dagskrár í skólann á morgun, ef það er til á heimilinu.

Skipulag þemadaganna er í grófum dráttum þannig að nemendum er raðað í aldursblandaða hópa á miðvikudag og fimmtudag, alls sex talsins, sem fara á inni- og útistöðvar. Þess vegna þurfa nemendur að vera klæddir til útiveru.

Nemendur eru beðnir um að skreyta sig með lit þess hóps sem þeir tilheyra, eins mikið og hver og einn vill. Hópalitirnir eru 6 talsins: Gulur, rauður, grænn, blár, bleikur og appelsínugulur. Umsjónarkennarar hafa nú þegar upplýst nemendur um skipulag þemadaganna og hvaða litahóp hver tilheyrir.

Lokadagur þemadaganna, föstudagurinn 31. mars, er svo afmælishátíð. Afmælisdagskráin hefst kl. 10:30 með skrúðgöngu um skólann og samveru í íþróttasal.

Foreldrum/forráðamönnum og öðrum gestum er boðið að taka þátt í afmælisdagskránni, skoða afrakstur þemadaganna og aðra verkefnavinnu nemenda, ásamt því að þiggja kaffi og afmælisköku í tilefni dagsins. Áætlað er að formleg dagskrá taki um 40-50 mínútur.

Hlökkum til að sjá ykkur.

Kær kveðja,
starfsfólk Vallaskóla.