Suðurlandsmót grunnskóla í sveitakeppni fór fram á Flúðum síðastliðinn föstudag.
Alls mættu 26 sveitir til leiks frá 10 grunnskólum á Suðurlandi. 13 sveitir kepptu í flokki 1.-7.bekkjar og aðrar 13 í 8.-10. bekk.
4 taflmenn skipa hverja sveit og því voru rétt rúmlega 100 nemendur á mótinu. Ekki hafa svo margir sent skáksveitir áður í mótið og greinilegt að skákíþróttin er í góðri uppsveiflu um þessar mundir. Skáksamband Íslands sá um framkvæmd mótsins með aðstoð Flúðaskóla.
Kepptar voru 7 umferðir samkvæmt Monrad kerfinu. Mótið gekk hratt og vel fyrir sig en aðeins 1 stutt kaffipása var gerð á mótinu þar sem Flúðaskóli bauð upp á kaffiveitingar. Mikil spenna var í mótinu enda margir góðir skákmenn undir sama þaki.
Úrslit fóru þó svo að lokum að í yngri flokki vann sveit Vallaskóla skipaða þeim Ingimar Bjarti Jóhannssyni, Jóhanni Snæ Jónssyni, Jósúa Eldar Ragnarssyni og Magnúsi Tryggva Birgissyni úr 6. bekk með 20 og hálfan vinning. Í þeim eldri var það a-sveit Flúðaskóla sem hrósaði sigri.
Við óskum þeim til hamingju með titilinn!