Aðalkeppni Stóru upplestrarkeppninnar á Suðurlandi (keppni 1 – vesturhluti Árnessýslu) var haldin í Vallaskóla 13. mars sl. Fulltrúar Vallaskóla stóðu sig frábærlega en Þórunn Ösp Jónasdóttir í 7. DE hlaut 1. sæti keppninnar. Aðrir fulltrúar Vallaskóla voru þau Stella Björt Jóhannesdóttir og Páll Dagur Bergsson.
Skólaskrifstofa Suðurlands heldur utan um upplestrarhátíðina en alls voru 12 keppendur mættir til leiks úr eftirtöldum skólum: Grunnskólanum í Hveragerði, Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóla, Vallaskóla og Grunnskólanum í Þorlákshöfn.
Vallaskóli var gestgjafaskólinn að þessu sinni og dagskráin fór fram í Austurrými skólans. Kristín Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Skólaskrifstofu Suðurlands, setti hátíðina en Ásta Björk Björnsdóttir kennsluráðgjafi frá Skólaskrifstofu Suðurlands stjórnaði dagskrá. Bjarni Harðarson, bóksali og rithöfundur, flutti ávarp.
Á milli upplestraratriða voru flutt tónlistaratriði en þar voru fremstir flokki nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga. Foreldrar og nemendur 10. bekkja Vallaskóla buðu upp á glæsilegar veitingar í hléi. Var það hluti af fjáröflun nemenda í 10. bekk vegna skólaferðalags þeirra næsta vor.
Nemendur sem taka þátt í upplestrarkeppninni koma allir úr 7. bekk. Rithöfundur og skáld keppninnar að þessu sinni voru þau Kristín Helga Gunnarsdóttir og Gyrðir Elíasson. Álfrún Björt Agnarsdóttir (nemandi í 8. RS í Vallaskóla og vinningshafi í upplestrarkeppninni í fyrra) kynnti Kristínu Helgu á hátíðinni. Bjarki Þór Sævarsson (nemandi í 8. RS í Vallaskóla og vinningshafi í upplestrarkeppninni í fyrra) kynnti Gyrði Elíasson.
Þátttakendur lásu upp texta eftir Kristínu (úr bókinni Draugaslóð) og í öðrum hluta keppninnar lásu þeir upp ljóð eftir Gyrði. Í þriðja og síðasta hluta keppninnar lásu nemendur upp ýmis ljóð að eigin vali.
Þórunn Ösp Jónasdóttir 7. DE í Vallaskóla lenti í fyrsta sæti. Í öðru sæti lenti fulltrúi Sunnulækjarskóla og í þriðja sæti lenti fulltrúi Grunnskóla Hveragerðis.
Formaður dómnefndar og fulltrúi Radda (samtök um vandaðan upplestur og framsögn), Þorleifur Hauksson, afhenti viðurkenningarskjöl. Verðlaun voru gjafabréf frá bókaverslunum Eymundsson og allir þátttakendur fengu bókaverðlaun frá Félagi íslenskra bókaútgefenda..
Fleiri myndir í albúmi undir ,,Myndefni“.