Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar í Árborg 2023 var haldin í Sunnulækjarskóla fimmtudaginn 23. mars. Lokahátíðin er samstarfsverkefni grunnskólanna og Skólaþjónustu Árborgar með stuðningi frá Röddum sem áður héldu utan um keppnina á landsvísu.
Á lokahátíðinni keppa þrír fulltrúar frá hverjum skóla sem hafa verið valdir í forkeppnum í sínum skóla. Undirbúningur hefur þá staðið frá því á degi íslenskrar tungu 16. nóvember og hafa nemendur lagt á sig mikla vinnu við þjálfun bæði heima og í skólanum.
Keppendur lásu þrisvar sinnum, í fyrstu umferð var lesið textabrot úr bókinni Víti í Vestmannaeyjum eftir Gunnar Helgason, næst voru lesin valin ljóð eftir Aðalstein Ásberg og í þriðju umferð lásu keppendur ljóð sem þeir völdu sjálfir. Sigurvegari síðasta árs kynnti skáld keppninnar. Milli upplestra voru tónlistaratriði í umsjón Tónlistarskóla Árnesinga sem gaf samkomunni hátíðlegan blæ.
Dómnefndina skipuðu Ingibjörg Einarsdóttir frá Röddum sem var formaður dómnefndar, Erna Ingvarsdóttir kennari í Grunnskóla Hveragerðis og Hrund Harðardóttir kennsluráðgjafi í Árborg.
Keppendur voru til fyrirmyndar og eiga hrós skilið fyrir fallega framkomu og metnað. Sigurvegari keppninnar í ár Anna Metta Óskarsdóttir úr Vallaskóla, öðru sæti varð Rán Ægisdóttir úr Sunnulækjarskóla og í þriðja sæti varð Kristrún Birta Guðmundsdóttir úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri.