Ríkislögreglustjóri í samvinnu við Barnaheill, 112, SAFT, Heimili og skóla, Inhope Ins@fe og Fjölmiðlanefnd stendur fyrir stafrænum foreldrafundi um netöryggi barna á morgun, miðvikudag, kl. 12:00 – 13.00
Fundurinn er opinn öllum og foreldar sérstaklega hvött til þess að fjölmenna. Skráning er hafin hér: https://bit.ly/foreldrafundur Fundurinn er eingöngu á netinu og verða kynnt praktísk ráð fyrir foreldra um stafræna miðla, notkun þeirra og úrræði vegna stafrænna brota. Fundurinn hefst á kynningum og svo fylgja á eftir lifandi pallborðsumræður þar sem foreldrum á netinu verður jafnframt gert kleift að spyrja spurninga.
Þessi stafræni foreldarfundur er hluti af aðgerðum ríkislögreglustjóra gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum í samræmi við samkomulag þess efnis við stjórnvöld. Meðal annara aðgerða er vitundavakning meðal ungmenna í 8. bekk grunnskóla um stafrænt ofbeldi og gildi samþykkis í stafrænum og kynferðislegum samskiptum. Sérstakt fræðsluefni hefur verið útbúið fyrir nemendur í 8. bekk, auk þess sem kennsluleiðbeiningar og upplýsingar fyrir foreldra eru gerð aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku.
Tölfræði lögreglunnar, rannsóknastofnunarinnar Rannsóknar og greiningar, Fjölmiðlanefndar og Unicef á Íslandi benda til þess að stafræn kynferðisbrot sé meðal helstu ástæðna aukningar í kynferðisbrotum gegn börnum og ungu fólki. Þessi brot eru einnig í auknum mæli framin af börnum undir 18 ára aldri og því er vitingarvakningin í senn hugsuð sem fræðsla fyrir mögulega þolendur og sem forvörn fyrir mögulega gerendur. Við hvetjum foreldra barna og öll sem kunna að hafa áhuga á þessum málum að fylgjast með þessum stafræna foreldrafundi og kynna sér þá fræðslu sem er í boði til að vinna gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum.
Fundurinn er í upptöku og verður aðgengilegur á netinu til áhorfs að honum loknum.
Á síðasta skólavetri (2021-2022) var fræðsluefninu dreift til allra unglingadeilda á landinu, en til viðbótar var því fylgt eftir með heimsóknum samfélagslögga í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi eystra, lögreglunnar á Suðurnesjum og lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu. Þessir lögreglumenn hittu um 1500 börn og ungmenni og vöktu gríðarlega lukku. Tilgangur heimsóknanna var að byggja traust ungs fólks til lögreglunnar, upplýsa um leiðir og úrræði til þess að tilkynna um og bregðast við ofbeldi og stuðla að vitundarvakningu um öryggi í stafrænum og kynferðislegum samskiptum.