Skólareglur Vallaskóla

Í Vallaskóla grundvallast samskipti á virðingu, kurteisi og tillitsemi. Allir eiga rétt á vinnufriði.

1. Í Vallaskóla er námið stundað af kostgæfni. Við mætum stundvíslega í allar kennslustundir, vel undirbúin og með öll námsgögn meðferðis.

2. Góð umgengni er í hávegum höfð í Vallaskóla. Við göngum öll þrifalega um og berum virðingu fyrir eigum skólans og hvers annars. Við röðum skóm, göngum frá útifatnaði og hirðum vel um námsbækur og önnur gögn. 

3. Í Vallaskóla stýra kennarar vinnu nemenda í kennslustundum og nemendur fara að fyrirmælum þeirra og annars starfsfólks skólans á skólatíma.

4. Í Vallaskóla er lögð áhersla á heilbrigði og hollar lífsvenjur. Hollt nesti er öllum mikilvægt. Neysla gosdrykkja og sælgætis er ekki leyfð. Neysla tóbaks og vímuefna er bönnuð.

5. Ætlast er til þess að nemendur séu á skólalóðinni á skólatíma. Nemendur eru á ábyrgð foreldra/forráðamanna utan skólalóðar, bæði á leið úr og í skóla og einnig ef þeir yfirgefa skólalóð á skólatíma.

6. Í skólanum nota nemendur engin þau tæki og tól sem valda truflunum og óþægindum. Notkun síma, geislaspilara og annarra hljómtækja er óheimil í kennslu­stundum nema með leyfi kennara. (Reiðhjól, línuskautar, hjólabretti og vélhjól eru ekki notuð á skólatíma).

7. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á verðmætum sem þeir koma með í skólann.

8. Yfirhafnir, húfur, skór og annar útivistarfatnaður er ekki notaður í kennslu­stundum innandyra.

9. Í ferðalögum og á skemmtunum á vegum skólans eru allar reglur skólans í fullu gildi, nema annað sé tekið fram.

Viðurlög við brotum á skólareglum

,,Foreldrar/forráðamenn bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna.  Á þeim hvílir sú skylda að börnin sæki skóla og að þau séu eins mótttækileg fyrir þeirri menntun sem skólinn annast og framast er unnt.” (Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti, bls. 44).

Innan skólans er stöðugt unnið að því að bæta aga og auka aðhald í öllu starfi með það að markmiði að skólastarfið gangi snurðulaust fyrir sig. Skólinn lítur svo á að það sé sameiginlegt verkefni skólans og foreldra/forráðamanna að standa vel að því málefni. Ávallt skal tilkynna  foreldrum/forráðamönnum ef beita þarf viðurlögum við skólareglum.

Lögmæt forföll skulu tilkynnt af forráðamanni nemenda til skrifstofu skólans til skráningar svo fljótt sem verða má. Ef skriflegra vottorða er krafist eru þau gild frá forráðamanni eða lækni. Tilkynningar um forföll nemenda eiga að jafnaði að berast skólanum samdægurs, ekki mörgum dögum síðar. Gleymi foreldri að tilkynna veikindi barns, en gerir það síðar þegar barnið hefur fengið fjarvist og óskar eftir leiðréttingu, gildir að jafnaði sú regla að komi tilkynning of seint, er barnið skráð með fjarvist. Umsjónarkennari metur aðstæður og ákveður hvort leiðréttinga er þörf.

Brottrekstur:

Við alvarleg og/eða ítrekuð brot á skólareglum getur þurft að grípa til tímabundinnar brottvísunar úr skóla, brottvísunar úr einstökum greinum eða brottvísunar um lengri tíma. Um brottvísun úr einstökum greinum eða brottvísunar í lengri tíma en nemur einum skóladegi gilda ákvæði stjórnsýslulaga.

Vinnureglur við beitingu viðurlaga

Viðurlög miðast fyrst og fremst við það að þau hjálpi nemandanum að bæta hegðun sína eða stöðu, eins og segir um í reglugerð um skólareglur nr. 270/2000, en þar segir orðrétt í 6. grein:

,,Nýta skal til fullnustu allar þær leiðir sem skólinn ræður yfir til að leita lausna og ráða bót á hegðun nemanda. Leita þarf allra mögulegra orsaka innan skólans til að viðurlög verði bæði markviss og komi nemandanum að gagni við að bæta hegðun sína.”

Vinnureglur

Umsjónarkennari ber ábyrgð á og fylgist með því að umsjónarnemendur hans hlíti þeim viðurlögum sem ákveðin hafa verið. Brot á skólareglum verða skráð í Mentor. Viðurlög við skólareglum eiga við nemendur í 6. – 10. bekk. Foreldrar nemenda í 1. – 5. bekk eru látnir vita ef þeir gerast brotlegir við skólareglur. Mismunandi vinnureglur gilda eftir því hvaða regla er brotin.

Regla 1 –  Ástundun.

  • Ef nemandi fellur í skólasóknareinkunn úr 10.00 vegna þess að mæting og ástundun er ábótavant er nemanda gefin kostur á því að bæta þar úr. Undirritaður er sérstakur samningur vegna þessa. Sjá nánar umfjöllun um skólasóknareinkun.

Regla 2  –  Umgengni .

  • Ef nemandi er uppvís að slæmri umgengni eða sóðaskap þarf hann þrífa eftir sig.
  • Ef nemandi veldur viljandi skemmdum á eignum skólans eða annarra má hann búast við því að þurfa að bæta skaðann.

Regla 3 – Verkstjórn starfsfólks.

  • Við fyrsta brot fær nemandi tiltal. (Tiltal er ekki skráð)
  • Láti nemandi sér ekki segjast er hann áminntur og skráður í Mentor.
  • Láti nemandi sér enn ekki segjast er honum vísað úr tíma eða af vettvangi og foreldrum gert viðvart af viðkomandi kennara. Kennari tilkynni skrifstofu skólans að hann hyggist vísa nemanda úr tíma. Nemanda er ávallt vísað á skrifstofu skólans.
  • Virði nemandinn regluna alls ekki þrátt fyrir ofangreind þrep er honum vísað til skólastjórnenda sem ákveða frekari aðgerðir og foreldrum gert viðvart.

Regla 4 –  Heilbrigði og hollar lífsvenjur .

  • Ef nemandi verður uppvís að reykingum eða neyslu áfengis eða annarra vímuefna þarf viðkomandi að sækja fræðslu um vímuvarnir til skólahjúkrunarfræðings. Einnig má nemandinn eiga von á því að vera vísað úr skóla það sem eftir lifir skóladags.
  • Gosdrykkir og sætindi eru gerð upptæk hjá nemanda á skólatíma, nema fyrir liggi sérstakt leyfi frá skólanum.

Regla 5 –  Fjarvera frá skólalóð á skólatíma

  • Treyst er á samvinnu við foreldra um að leysa einstök mál.
  • Ef yngri nemendur (í 1. – 5. bekk) fara af skólalóð í leyfisleysi eru foreldrar barna tafarlaust látnir vita.

Regla 6 –  Tæki og tól sem valda truflunum

  • Ef nemendur verða uppvísir að notkun hverra þeirra tækja eða tóla sem valda truflun á kennslu eða öðru starfi skólans, utan eða innan veggja kennslu­stofunnar, eru öll slík tæki eða tól gerð upptæk. Nemendur fá þau ekki afhent, heldur verða foreldrar/forráðamenn að sækja þau til skólastjórnenda. (sjá einnig reglur um notkun GSM-síma).
  • Neiti nemandi að verða við reglunni, kemur til reglu 3.

Regla 7 –  Verðmæti í skóla

  • Nemendur bera ábyrgð á þeim verðmætum sem þeir kjósa að koma með í skólann og skólinn bætir ekki tjón á þeim verðmætum.

Regla 8 – Útivistarfatnaður

  • Ef nemendur koma í útifatnaði inn í kennslustundir er þeim gert að fara og setja hann á viðeigandi staði, á hanka, í skógeymslu, o.s.frv.
  • Ef nemandi neitar kemur til reglu 3.
  • Aðrir en kennarar komi upplýsingum um brot til umsjónarkennara svo þeir geti skráð brotið.
  • Við alvarleg og ítrekuð brot á skólareglum getur þurft að grípa til tímabundinnar brottvísunar úr skóla, brottvísunar úr einstökum greinum eða brottvísunar um lengri tíma. Um brottvísun úr einstökum greinum eða brottvísunar í lengri tíma en nemur einum skóladegi gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
  • Þar sem viðbrögð við brotum á agareglum eru samvinnuverkefni foreldra/forráðamanna og skóla væntir Vallaskóli þess að foreldrar/forráðamenn verði í góðu samstarfi með að framfylgja skólareglum og viðurlögum við þeim.

Reglur um farsímanotkun nemenda

  • Nemendur í 1.-7. bekk mega ekki nota síma í skólanum og á skólatíma, hvorki í kennslustund eða á opnum svæðum nema að undangengnu leyfi starfsmanns skólans. Tækin skulu geymd í skólatösku.
    Sama gildir í vettvangsferðum og skólaferðalögum
  • Nemendur í 8.-10. bekk mega ekki nota síma í kennslustundum nema með leyfi starfsmanns skólans. Notkun síma í opnum rýmum fer eftir því hvort um er að ræða tækjalaus svæði eða ekki.
    Sama gildir í vettvangsferðum og skólaferðalögum
  • Símar eru á ábyrgð nemenda í skólanum og á skólatíma. Tjón vegna þjófnaðar eða skemmda verður ekki bætt af hálfu skólans. Við brot á þessum reglum skal nemandi slökkva á síma sínum og afhenda hann starfsmanni umyrðalaust. Nemandi getur fengið símann aftur þegar skóladegi er lokið.

Skólasókn

Í grunnskólalögum kemur fram að foreldrar beri ábyrgð á uppeldi barna sinna og á því að þau innritist í skóla og sæki skóla. Jafnfram er mikilvægt að hafa í huga að menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, trausti og upplýsingamiðlun beggja aðila, sameiginlegum ákvörðunum og samábyrgð.