Tíunda starfsár Vallaskóla er nú hafið. Í nógu er að snúast og allt hefur gengið vel á fyrstu dögum starfsins. Myndir frá skólasetningu eru nú til staðar í myndaalbúmi hér á síðunni.
Við upphaf starfsins í Vallaskóla að þessu sinni hefur ein meginbreyting orðið á nýtingu húsnæðisins og öðrum aðbúnaði en hún er sú, að nú er lokið grunnskólakennslu Sandvíkurmegin a.m.k. í bili. En þess í stað hefur verið innréttað kennslurými fyrir yngstu árgangana í húsinu norðan skólavistunarinnar í Bifröst. Húsnæðið er allt hið besta og skólamenningin þar er nú óðum að mótast.
Nemendafjöldi við upphaf starfsins er tæplega 550 miðað við 575 við upphaf seinasta vetrar eða fækkun um 25 nemendur. Það má því telja næsta víst að jöfnun nemendafjöldans á milli Vallaskóla og Sunnulækjarskóla sé lokið og meiri ró og festa færist nú yfir þessa þróun. Jafnframt þessu höfum við hér í Vallaskóla breytt stofunýtingunni þannig að yngstu nemendurnir verða vestast í húsnæðinu en þeir elstu austast.
Sjálfsagt er að hafa eftirfarandi í lagi
Um leið og við óskum nemendum okkar velfarnaðar á nýju skólaári þá leggjum við mikla áherslu á að foreldrar gæti þess að börnin þeirra fari eftir umferðarreglum og gæti að sér í hvívetna. Komi börnin á reiðhjólum þá skulu þau nota viðeigandi öryggisbúnað og læsa hjólum sínum í hjólagrindum. Enn fremur minnum við á að merkja skal allan fatnað og námsgögn.