(Bréf sent í Mentor 20.3.2020. Von er á pólskri þýðingu)
Kæru fjölskyldur nemenda í Vallaskóla.
Skólastarfið síðustu viku hefur gengið vonum framar. Nemendur og starfsfólk skólans hafa staðið sig frábærlega í breyttum aðstæðum.
Við einblínum ennþá að halda skólastarfinu óbreyttu í 1.-4. bekk en skóladagurinn hjá nemendum í 5.-10. bekk mun skerðast aðeins frá því sem var í síðustu viku.
Skóladegi nemenda lýkur sem hér segir:
1.- 4. bekkur kl. 12:40 – ATH! Hádegisverður verður áfram fyrir alla nemendur.
5.-7. bekkur kl. 11:50 – ATH! Enginn hádegisverður (breyting frá fyrra skipulagi).
8.-10. bekkur kl. 11:30 – ATH! Enginn hádegisverður (breyting frá fyrra skipulagi).
Frímínútur verða með breyttu sniði skv. tilmælum almannavarna. Mun starfsfólk fara í morgungöngu með hvern nemendahóp fyrir sig þegar hentar fram að hádegi. Þannig tryggjum við að nemendur blandist enn síður.
Skólanum er áfram skipt í hólf til að minnka hættu á krosssmiti.
Hólf 1 er Valhöll og Bifröst með nemendur í 1. og 2. bekk.
Hólf 2 er vesturgangur með nemendur í 3., 4. og 5. bekk.
Hólf 3 er miðgangur og aðalanddyri með nemendur í 6. og 7. bekk.
Hólf 4 er austurrými með nemendur í 8.-10. bekk.
Samgangur á milli hólfa er óheimill (með einhverjum undantekningum vegna starfsfólks).
Sem fyrr biðjum við foreldra að úthluta börnum sínum vatnsbrúsa og fylla á hann heima og koma með í skólann. Minnum foreldra enn fremur á að nesta börn sín vel.
Nemendur mega ekki mæta í skólahúsnæðið fyrr en kl. 8:00. Þá fyrst opna inngangarnir. Tímar hefjast hjá öllum árgöngum kl. 8:10 eins og vanalega. Foreldrar mega fylgja börnum sínum að inngangi en ekki koma inn í skólahúsnæðið. Biðjum við alla að virða þessa meginreglu.
Nemendur í 1. og 2. bekk mæta eins og venjulega í Valhöll.
Nemendur í 3.-5. bekk ganga aðeins inn og út um vesturanddyri frá Tryggvagötu.
Nemendur í 6. og 7. bekk ganga aðeins inn og út um aðalanddyri og norðuranddyri (mötuneytisaðgangur).
Nemendur í 8., 9. og 10. bekk ganga aðeins inn og út um Engjavegsanddyri.
Fjöldi nemenda í hverju kennslurými miðast við 20 nemendur, ásamt starfsfólki. Hver kennsluhópur er með fast aðsetur fyrir daginn og fer ekki í önnur rými.
Með kærri kveðju.
Starfsfólk Vallaskóla.