Skólaslit 2012-2013

,,Skólinn – og þá ekki síst – grunnskólinn er ein mikilvægasta stofnun þjóðfélagsins“. Þannig hljómaði upphaf ræðu Guðbjarts Ólasonar skólastjóra Vallaskóla við útskrift nemenda í 10. bekk, að viðstöddum forráðamönnum þeirra, föstudaginn 7. júní sl. Það var hverju orði sannara þegar litið var yfir fríðan og prúðbúinn hóp nemenda í íþróttasalnum sem nú kvaddi skólann. Ellefta starfsári Vallaskóla er lokið.

Eins og Guðbjartur vék að í ræðu sinni þá var skólastarfið í Vallaskóla með hefðbundnum hætti í vetur hjá 537 nemendum, enda þótt hvert ár beri að vísu ætíð sitt sérstaka svipmót. Fimmtudaginn 6. júní voru skólaslit í 1.-9. bekk, allt gert með formlegri dagskrá í íþróttasal skólans, og ánægjulegt var að sjá börnin koma í fylgd foreldra sinna í vorblíðunni. Sumarfríið er framundan hjá þeim þangað til að nýtt skólaár hefst í ágúst.

En útskriftarnemendurnir hlýddu áfram á skólastjórann sinn, sem lagði áherslu á að við lok grunnskólans kveðja menn það skeið ævinnar þar sem m.a. þau vináttutengsl hafa myndast, sem oft og tíðum endast til æviloka. Fyrir hönd starfsfólks Vallaskóla þakkaði Guðbjartur nemendum í 10. AH, 10. HS og 10. MA fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum og óskaði þeim velfarnaðar og blessunar í framtíðinni.

Alls 74 nemendur útskrifuðust nú úr Vallaskóla, þar af einn nemandi úr 9. bekk, Dagný María Pétursdóttir. Ellefu nemendur í þessum hópi luku grunnskólagöngu sinni um seinustu áramót og hófu þá nám á framhaldsskólastigi við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Kveðjur til starfsmanna

Á útskriftarhátíðinni var einn starfsmaður kvaddur við starfslok í Vallaskóla að loknum löngum og gifturíkum starfsferli. Var það Guðrún Þóranna Jónsdóttir, deildarstjóri sérkennslu. Guðrún gengdi stöðu deildarstjóra allt frá stofnun Vallaskóla og rækti störf sín af einstakri alúð og nærgætni. Áður hafði hún áður m.a. starfað við Sandvíkurskóla um árabil. Voru henni færðar sérstakar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.

Kveðjur til nemenda

Eftir setningu og ávarp fluttu yngri nemendur upplestrar- og tónlistarkveðju. Jóhann Bragi Ásgeirsson og Karolina Konieczna í 7. bekk fluttu ljóð og Karítas Birna Eyþórsdóttir, nemandi í 8. bekk, lék lagið Bourrée eftir Bach á fiðlu við undirleik Roberts Darlings, skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga. Þeir Nökkvi Alexander Rounak Jónsson og Sindri Snær A van Kasteren, nemendur í 10. bekk, fluttu lagið The Pink Panther eftir Mancini á fiðlu og trommur.

Aron Hinriksson umsjónarkennari færði nemendum kveðju kennara í skemmtilegri ræðu og Hergeir Grímsson, formaður Nemendafélags Vallaskóla (NEVA), færði starfsmönnum skólans þakkir og kveðju í ræðu sinni fyrir hönd útskriftarnema og nemendafélagsins. Nemendur færðu umsjónarkennurum 10. bekkjar, þeim Aroni Hinrikssyni, Helgu Salbjörgu Guðmundsdóttur og Mundu K. Aagestad, myndarlega blómvendi. Aron fékk að auki fallega gjöf frá sínum umsjónarnemendum en það voru verðlaunapeningar frá hverjum og einum nemanda með persónulegri kveðju. Voru kveðjurnar lesnar upp um leið og hver nemandi afhenti Aroni sinn verðlaunapening. Ástæðan fyrir því að Aron fékk verðlaunapeningana var m.a. sú að nemendum barst það til eyrna að hann hefði aldrei fengið slík verðlaun á ævinni. Nemendur hans breyttu þeim veruleika heldur betur með þessum hugljúfa og skemmtilega hætti.

Eftir útskrift og afhendingu viðurkenninga var tekin hópmynd af útskriftarhópnum og því næst var boðið í kaffi. Veitingarnar voru að venju glæsilegar en kaffisamsætið var í boði foreldra útskriftarnema í samstarfi við mötuneyti Vallaskóla.

Starfsfólk Vallaskóla óskar öllum útskriftarnemendum, foreldrum og forráðamönnum þeirra, innilega til hamingju með áfangann og alls hins besta í framtíðinni!

Viðurkenningar

Það var myndarlegur hópurinn sem hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur á grunnskólaprófi við lok 10. bekkjar, en nemendurnir eru eftirtaldir:

Alexandra Ásgeirsdóttir

Harpa Hlíf Guðjónsdóttir

Ástrós Hilmarsdóttir

Elena Elísabet Birgisdóttir

Hulda Dís Þrastardóttir

Vigdís Björg Valgeirsdóttir

Alexander Már Egan

Ásta Berglind Sigurðardóttir

Nökkvi Alexander Rounak Jónsson

Unnar Magnússon

Snorri Páll Ólason

Bjarki Benediktsson

Viðurkenning fyrir mjög góðan heildarárangur á grunnskólaprófi kom í hlut Alexöndru Ásgeirsdóttur.

Viðurkenningu fyrir foreldrastarf í þágu nemenda í 10. bekk hlaut ferðanefnd 10. bekkjar Vallaskóla, en í henni voru: Bryndís Guðmundsdóttir, Bryndís Klara Guðbrandsdóttir, Alda Sigurðardóttir, Jón Özur Snorrason, Álfhildur Eiríksdóttir, Hjördís Davíðsdóttir og Guðrún Linda Björgvinsdóttir.

Við endum á kveðjuorðum Guðbjarts: ,,Öllu starfsfólki Vallaskóla þakka ég mikið og óeigingjarnt starf í vetur. Loks vil ég þakka foreldrum og nemenda skólans fyrir ágætt samstarf og velvild gagnvart því starfi, sem hér er unnið“. Að því sögðu hringdi Guðbjartur gömlu koparbjöllunni til merkis um að skólaárið væri á enda runnið. 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá skólaslitunum. Fleiri myndir eru í myndaalbúmi undir ,,Myndefni“.

  Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. Sigurdórsdóttir Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. Sigurdórsdóttir Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. Sigurdórsdóttir Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. Sigurdórsdóttir Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. Sigurdórsdóttir Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. Sigurdórsdóttir Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. Sigurdórsdóttir Mynd: Vallaskóli 2013/Guðbjörg H. SigurdórsdóttirMynd: Vallaskóli 2013 Mynd: Vallaskóli 2013 Mynd: Vallaskóli 2013