Skólabyrjun í Vallaskóla

Kæru fjölskyldur nemenda í Vallaskóla.

Senn hefst skólastarfið að nýju eftir sumarleyfi. Vonum við að þið hafið átt ánægjulegt sumar.

Óhætt er að segja að allir séu spenntir fyrir nýju skólaári. Starfsfólk hefur verið að störfum síðustu daga við undirbúning en skólasetning verður í íþróttahúsi Vallaskóla mánudaginn 24. ágúst eins og auglýst hefur verið. Setningin verður með óhefðbundnum hætti vegna COVID-19 þar sem um fjöldatakmarkanir er að ræða. Að þessu sinni er ekki gert ráð fyrir þátttöku foreldra/forráðamanna við skólasetningu.

Nemendur og forráðamenn í 1. bekk (árgangur 2014) fá sérstaka viðtalsboðun eins og áður.

Kl. 09:00  2. – 3. bekkur, árgangur 2013 og 2012.

Kl. 10:00  4. – 6. bekkur, árgangar 2011, 2010 og 2009.

Kl. 11:00  7. bekkur, árgangur 2008.

Kl. 13:00  8. – 10. bekkur, árgangar 2007, 2006 og 2005.

Hefðbundin skólakynning fyrir foreldra fellur niður í ár. Kennarar munu leitast við að senda upplýsingar um starfið til foreldra í tölvupósti eða með öðrum rafrænum hætti.

Óbreytt skólastarf þrátt fyrir COVID-19

Við vitum að nokkur óvissa lúrir í kringum okkur í skólasamfélaginu vegna COVID-19. Við vitum að líðan fólks er misjöfn við þær aðstæður. Það er skiljanlegt. Skóladagur nemenda er þó engu að síður í föstum skorðum, sem er vel.

Starfsfólk skólans þarf hins vegar að lúta ákveðnum takmörkunum og því verður skólahúsnæðinu skipt upp í fimm sóttvarnahólf (Valhöll, Ú-stofur, Vesturgangur, Miðgangur og Austurrými). Er þetta gert til að minnka samgang starfsfólks sem allra mest í ljósi 1-2 m fjarlægðartakmarkana. Samgangur starfsfólks á milli hólfa er heimill að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Þessar ráðstafanir skerða ekki skóladag barnanna nema að sóttvarnayfirvöld tilkynni annað. Samræmi er á milli grunnskóla Árborgar í meginaðgerðum.

Verði forföll starfsfólks mikil þannig að ekki verði unnt að sinna kennslu með eðlilegum hætti getur komið til þess að börn verði send fyrr heim úr skólanum. Þá verður sérstaklega haft samband við forráðamenn nemenda í 1. – 4. bekk.

Áfram smitgát

Börnin þurfa að sýna smitgát sem fyrr, þvo og spritta hendur. Foreldrar og forráðamenn eru beðnir um að brýna þetta vel fyrir börnum sínum.

Vinsamlegast sendið börn ykkar ekki af stað í skólann ef þau eru lasleg eða sýna flensueinkenni. Komi þau þannig í skólann verða þau öryggisins vegna send heim í samráði við foreldra/forráðamenn.

Sem fyrr biðjum við ykkur foreldra/forráðamenn að úthluta börnum ykkar vatnsbrúsa og fylla á hann heima og koma með í skólann. Vatnsbrunnar skólans verða ekki í notkun nema í mötuneytinu.

Skólinn opnar kl. 7:45 en mælst er til að nemendur mæti um kl. 8:00. Tímar hefjast hjá öllum árgöngum kl. 8:10 eins og vanalega. Foreldrar/forráðamenn mega fylgja börnum sínum að inngangi en ekki koma inn í skólahúsnæðið. Biðjum við alla að virða þessa meginreglu. Þurfi foreldrar hins vegar að koma inn í skólahúsnæðið á skólatíma eru þeir beðnir um að setja á sig andlitsgrímu og hanska áður en gengið er inn í húsnæðið.

Námsgögn

Nemendur fá námsgögn, grunnpakka sem inniheldur stílabækur, blýanta, strokleður, liti og þess háttar. Mælst er til þess að nemendur beri ábyrgð á þessum námsgögnum og deili þeim ekki með öðrum. Þeir sem vilja koma með pennaveski að heiman mega gera það.

Spjaldtölvukaup

Við teljum að skólinn hafi fest sig nokkuð vel í sessi þegar kemur að notkun snjalltækja og tæknilausna í námi og kennslu. Síðastliðin þrjú ár hefur Vallaskóli, í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg, boðið fjölskyldum barna í Vallaskóla að kaupa spjaldtölvur. Sá háttur verður einnig hafður á í vetur.

Á heimasíðunni https://leifur6.wixsite.com/ipadvallo er hægt að nálgast allar upplýsingar um hvernig staðið er að þessum kaupum.

Reynsla okkar undanfarin ár er sú að alla jafna er betra fyrir nemendur að nota sín eigin tæki í náminu. Spjaldtölvur eru mest notaðar á unglingastigi og sem stendur liggur áherslan þar. Að sjálfsögðu mun skólinn áfram útvega þeim tæki sem ekki hafa aðgang að slíku.

Reglur um farsímanotkun nemenda

Mjög margir nemendur eiga farsíma og fjölgar eftir því sem eldri eru. Farsímar eru óumdeilanlega frábær tæki og til margra hluta nytsamleg. En þeim fylgja líka vandamál og þess vegna gilda ákveðnar reglur í skólanum um notkun þeirra.

Við í Vallaskóla lítum svo á að það sé ósiður að nota farsíma í kennslustundum og að þeir hafi oftar en ekki óæskileg áhrif á ástundun náms. Þeir eru því bannaðir þar. Það er heimilt að koma með farsíma í skólann en mælst er til að nemendur setji síma sína á þögn í upphafi hverrar kennslustundar, geymi þá í skólatöskum sínum eða í körfu hjá kennara.

Reglurnar eru eftirfarandi:

a)

Nemendur í 1.-7. bekk mega ekki nota farsíma í skólanum og á skólatíma, hvorki í kennslustund eða á opnum svæðum nema að undangengnu leyfi starfsmanns skólans. Tækin skulu geymd í skólatösku. Sama gildir í vettvangsferðum og skólaferðalögum.

b)

Nemendur í 8.-10. bekk mega ekki nota farsíma í kennslustundum nema með leyfi starfsmanns skólans. Notkun síma í opnum rýmum fer eftir því hvort um er að ræða tækjalaus svæði eða ekki. Sama gildir í vettvangsferðum og skólaferðalögum.

c)

Farsímar eru á ábyrgð nemenda í skólanum og á skólatíma. Tjón vegna þjófnaðar eða skemmda verður ekki bætt af hálfu skólans.

Við brot á þessum reglum skal nemandi slökkva á síma sínum og afhenda hann starfsmanni umyrðalaust. Nemandi getur fengið símann aftur þegar skóladegi er lokið.

Önnur atriði

Vegna ofnæmis mega hvorki nemendur né starfsfólk koma með matvæli í skólann sem innihalda egg eða hnetur.

Foreldrar/forráðamenn eru beðnir um að endurnýja vottorð barna sinna sem eru með ofnæmi eða fæðuóþol hvers konar. Hafa skal samband við skólahjúkrunarfræðing skólans sem kemur þeim upplýsingum áfram til starfsfólks mötuneytis.

Við bjóðum foreldrum/forráðamönnum að líka við fésbókarsíðu skólans https://www.facebook.com/vallaskoliselfoss/ en þar birtast fréttir og nauðsynlegar upplýsingar um skólastarfið. Eins minnum við á heimasíðu skólans www.vallaskoli.is

Með þökk fyrir velvilja í garð skólans og gott samstarf.

Með kærri kveðju.

Starfsfólk Vallaskóla.

Athugið – pólsk útgáfa af þessu bréfi er væntanleg innan skamms