Skjálftinn – Vallaskóli sigurvegari

Síðastliðinn laugardag, þann 23. nóvember, tóku nemendur úr unglingadeild Vallaskóla þátt í Skjálftanum sem er árleg hæfileikakeppni sunnlenskra ungmenna. Fór hún fram í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn að þessu sinni en þetta er í fjórða sinn sem hann er haldinn.

Atriði Vallaskóla fjallaði um heimilisofbeldi, brotna sjálfsmynd og afleiðingar þess. Vallaskóli lenti í fyrsta sæti í þessari glæsilegu keppni þar sem fimm aðrir skólar tóku þátt. Þjálfarar Skjálftahóps Vallaskóla voru að þessu sinni þær Íris Dröfn Kristjánsdóttir og Unnur Edda Björnsdóttir. Þær vilja vekja athygli á að þetta var einstaklega hæfileikaríkur, metnaðarfullur og samhentur hópur og voru krakkarnir sjálfum sér og skólanum til mikils sóma.

Sjá má fleiri myndir á Facebook síðu Skjálftans: www.facebook.com/sudurlands.skjalftinn og á Instagram síðu skjálftans: www.instagram.com/skjalftinn

Við óskum þátttakendum Vallaskóla til hamingju.