Nemendafélag Vallaskóla

NEVA

Í Vallaskóla starfar nemendafélag Vallaskóla, NEVA, með starfsemi fyrst og fremst á meðal nemenda í eldri deild.

Innan hvers bekkjar kjósa nemendur sína bekkjarfulltrúa inn í stjórn félagsins. Einn aðalmann og einn varamann. Stjórn NEVA kýs sér formann og varaformann á fyrsta stjórnarfundi.

Stjórn nemendafélagsins hét áður nemendaráð en samkvæmt grunnskólalögunum frá árinu 2008 er það nemendafélag sem starfar við grunnskólann en ekki nemendaráð. Nemendaráð heitir því stjórn nemendafélags.

Úr grunnskólalögum 2008:

10. gr.

Við grunnskóla skal starfa nemendafélag og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess. Nemendafélagið vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda og skal skólastjóri sjá til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum.

Nemendafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð skv. 2. mgr. 8. gr.

Innan stjórnar NEVA starfar framkvæmdaráð. Framkvæmdaráð er skipað sjö fulltrúum úr árgöngunum og skiptast þeir svona: 10. bekkur með tvo fulltrúa, 9. bekkur með tvo fulltrúa og 8. bekkur með þrjá fulltrúa.

Stjórn NEVA

Umsjónarmaður:

Formaður.

Varaformaður 

Ritari

rir

Umsjónarmenn og hlutverk

Stjórn NEVA stýrir nemendafélagi skólans og þar með félagslífi hans. Stjórnin nýtur aðstoðar kennara skólans í starfsemi, stjórnun og skipulagningu. Kennarinn hefur þannig umsjón með félagslífi nemenda.

NEVA vinnur úr hugmyndum nemenda og fær þá til að starfa og vera með í félagslífi skólans. Stjórnin er tengiliður milli nemenda og kennara. Stjórnin kemur reglulega saman ásamt umsjónarmönnum félagslífs í skólanum.

Í yngri bekkjum er félagslífið að mestu í höndum umsjónarkennara. Bekkjarkvöld, undirbúin af nemendum og foreldrum hvers bekkjar eru aðalþátturinn í félagslífi þeirra auk þess sem NEVA heldur a.m.k. eina samkomu ætlaða 5.-7. bekk á hvorri önn.

Meðal þess sem NEVA stendur fyrir er: Skautaferð, myndbandssýningar og pizzakvöld, tónlistarkvöld þar sem m.a. ýmsar hljómsveitir troða upp, spilakvöld og bingó. Þegar farið er í ferðir á vegum NEVA er óskað eftir skriflegu leyfi foreldra.

Fastir liðir

Árshátíð eldri nemenda er haldin í nóvember. Nemendur 10. bekkjar borða saman og síðan er dansleikur fyrir alla nemendur í 8.-10. bekk. Hljómsveit er fengin til að leika fyrir dansi en auk þess troða gjarnan skólahljómsveitir upp. Á árshátíðinni er herra og ungfrú Vallaskóli krýnd.

Starfsreglur nemendafélagsins

Í 10. grein grunnskólalaga (2008 nr. 91) segir að nemendafélag hvers skóla skuli setja sér starfsreglur og fylgja þær hér á eftir.

Nemendafélag Vallaskóla starfar að félagsmálum nemenda samkvæmt 10. grein grunnskólalaga. Það hefur ákveðið hlutverk og gegnir vissum skyldum.

Stjórn félagsins skal vera ráðgjafi skólastjórnenda um ýmis málefni nemenda, t.d. félagsmál, tómstundir og starfsaðstöðu.

Stjórn félagsins skipuleggur, í samstarfi við umsjónarmenn félagsstarfs og skólastjórnendur, félagsstörf nemenda og sér um framkvæmd þeirra.

Stjórn félagsins semur starfsáætlun þar sem allir nemendur eiga að finna eitthvað við sitt hæfi.

Stjórn félagsins skal sjá til þess að upplýsingar um félagsstarfið séu vel kynntar öllum er málið varðar.

Meðlimir stjórnar nemendafélagsins verða að vera þess meðvitaðir að áhrif þeirra á hugsanir og framkomu annarra nemenda geta verið mikil. Því skulu stjórnarmenn ætíð koma þannig fram að sómi sé að.

Stjórn félagsins skal halda gjörðabók um störf sín.

Meðlimir stjórnar skulu jafnan gæta þess að láta ekki námið gjalda fyrir félagsstörfin.