Litli upplesturinn

Litli Upplesturinn

Föstudaginn fyrir páska, þann 23. mars héldu nemendur í 4. bekk „Litla upplesturinn“. Þau buðu foreldrum sínum í heimsókn að njóta upplesturs og samveru í skólanum.

Það var yndislegt að sjá að hjá hverjum bekk var virkilega vel mætt og börnin létu ljós sitt svo sannarlega skína.

Um Litla upplesturinn

Haustið 2010 kom fram sú hugmynd að efna til nýs átaks í upplestri og munnlegri tjáningu í tilefni af 15 ára afmæli Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk. Að höfðu samráði við alla kennara í 4. bekk í Hafnarfirði varð niðurstaðan sú að fara af stað með verkefni í anda Stóru upplestrakeppninnar, með sömu markmið að leiðarljósi en sníða verkefnið að aldri og þroska nemenda í 4. bekk. Niðurstaðan varð sú að kalla verkefnið Litlu upplestrarkeppnina þar sem markmiðið væri að keppa að betri árangri og bæta upplestur og lestur. Einnig að efla sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum. Fyrsta árið var keppnin eingöngu í Hafnarfirði en í dag taka um 60 skólar þátt.

Meginmarkmið keppninnar er að nemendur flytji íslenskt mál sjálfum sér og öðrum til ánægju og að þeir hafi vandvirkni og virðingu að leiðarljósi við flutninginn. Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa við sjálfan sig, að verða betri í dag enn í gær og höfum við í Vallaskóla kallað þetta Litla upplesturinn og ekki notað keppnishugtakið hjá svona ungum nemendum. 

Litli upplesturinn í Vallaskóla

Í ár fannst okkur kominn tími til að flytja ekki eingönu íslenskt mál enda skólinn fjölmenningarlegt samfélag og 82 nemendur skólans tala annað móðurmál en íslensku. Í ár æfðu og fluttu börnin ljóð og þulur á íslensku, arabísku og pólsku. Í árganginum er einnig töluð spænska, danska, tælenska, indónesíska, litháíska og lettneska. Nemendur sungu einnig saman eitt lag og Ólafía Guðrún nemandi í 7. bekk og þátttakandi í Stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk flutti eitt ljóð fyrir okkur.

Markmiðið okkar er að skapa notalega stemningu og æfa börnin í að koma fram fyrir þau sem standa þeim næst. Foreldrar fengu boðskort og nemendur stóðu sig virkilega vel í undirbúningnum og á hátíðinni sjálfri.

Takk fyrir frábæran dag, Ástrós Rún deildarstjóri yngsta stigs.

Hér má sjá svo nokkrar myndir af viðburðinum.

Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).
Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).
Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).
Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).
Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).
Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).
Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).
Mynd: Vallaskóli 2018 (ÁRS).