Ásta Björk Björnsdóttir, kennari og kennsluráðgjafi, hélt mjög góðan fyrirlestur fyrir kennara í dag um læsi. Í grófum dráttum skiptir miklu máli fyrir börn nútímans og framtíðar, og þá ekki síst á grunnskólaaldri, að ná tökum á þessari grundvallar færni. Börn þurfa að geta lesið tiltölulega fyrirhafnarlaust og skilið innihald texta. Það skiptir máli fyrir áframhaldandi nám og kjölfestu í samfélaginu almennt.
Samkvæmt niðurstöðum úr Pisakönnun frá árinu 2009 þá þarf að gera betur á Íslandi þegar kastljósinu er beint að læsi. Auðvitað er lestrarfærni einstaklingsbundinn en hver og einn getur án efa bætt sig – sett sér ný markmið í lestrinum og aukið þar með ánægjuna á því að uppgötva nýja hluti og ævintýri.
Nemendur verða að þjálfa sig svo að nauðsynleg lesfimi náist. Þeir verða að lesa fjölbreytta, en ólíka, texta og beita mismunandi aðferðum við lesturinn – s.s. ítarlestri, hraðlestri og skimun. Í raun er enginn gullin formúla til en segja má að því meira sem lesið er, á sem fjölbreyttastan hátt, því betra!
Rannsóknir hafa sýnt að þeir nemendur sem nota tölvur (rafræna texta) til upplýsingaöflunar styrkja marktækt lestur sinn. Það á þó ekki við þá sem eingöngu nota tölvur sem leiktæki.
Lestrarfærni er mál okkar allra í skólasamfélaginu. Styðjum við lestur barna okkar. Ræðum við þau um það sem þau eru að lesa og hvetjum þau einnig að leita á ný mið í textaheiminum. Af nógu er að taka og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.