Fyrir stuttu héldu vinir okkar frá MC Holmsskole aftur til Danmerkur eftir velheppnaða heimsókn á Selfossi. Surtseyjarverkefnið gekk vel og gáfu börnin eyjunum nöfnin Ísmark og Danland, en tveir hópar unnu að gerð tveggja ímyndaðra samfélaga á Surtsey.
Að auki tóku dönsku krakkarnir þátt í ýmsum viðburðum, ásamt íslenskum vinum sínum og óhætt er að segja að krakkarnir hafi staðið sig frábærlega. Nokkur söknuður var í báðum hópum við brottför nemendanna í MC Holmsskole, er þau héldu af stað til Keflavíkur. Fljótlega hófust samskiptin þó aftur á fésbókinni og skipst var á fréttum. Vonandi munu þessi samskipti fylgja krökkunum áfram til framtíðar en án efa eflir svona Nordplus-verkefni samstarf verðandi þegna alþjóðasamfélagsins, þegar hlutirnir eru settir í stærra samhengi.
Kennararnir Birgitte, Gorm, Marianne, Linda Dögg, Margrét og Már, ásamt stuðningsfulltrúunum Höllu og Sigríði, eiga miklar þakkir skildar fyrir gott starf. En ekki síst er foreldrum og forráðamönnum nemenda í 7. bekk á Selfossi færðar þakkir fyrir frábærar móttökur og stuðning við verkefnið.
Hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni. Ítarlegri úttekt er væntanleg undir dálknum ,,Erlent samstarf“ hér á forsíðunni (neðst til hægri).