Kennarar eru sérfræðingar í að skapa nemendum námsumhverfi til aukins þroska, skilnings og skemmtunar. Ein aðferðin er að nýta nærumhverfið. Nemendur í 6. HS fóru í vettvangsferð að tjörninni við Gesthúsasvæðið. Markmið var vísindalegs eðlis, að skoða lífið í tjörninni og reyna að finna og skoða þær lífverur sem þar lifa. Nemendur voru til fyrirmyndar og sýndu verkefninu mikinn áhuga að sögn umsjónarkennara.
Í tjörninni blasti fjölbreytileiki lífsins við nemendum. Þar fundust tjarnartítur, brunnklukkur, síli, vorflugulirfur, vatnsketti, vatnabobba og fleira. Þegar í skólann var komið skoðuðu nemendur lífverurnar í víðsjá og unnu síðan skýrslu og önnur verkefni í kjölfarið eins og sönnum vísindamönnum sæmir.




