Aðalkeppni Stóru upplestrarkeppninnar á Suðurlandi (keppni 1 – vesturhluti Árnessýslu) var haldin í Grunnskólanum í Hveragerði 14. mars sl. Fulltrúar Vallaskóla stóðu sig frábærlega en þeir hlutu öll þrjú verðlaunasæti keppninnar.
Skólaskrifstofa Suðurlands heldur utan um upplestrarhátíðina en alls voru 13 keppendur mættir til leiks úr eftirtöldum skólum: Grunnskólanum í Hveragerði, Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóla, Vallaskóla og Grunnskólanum í Þorlákshöfn.
Gestgjafinn að þessu sinni var Grunnskólinn í Hveragerði og athöfnin fór fram með mikilli prýði. Kristín Hreinsdóttir setti hátíðina en Elínborg Sigurðardóttir kennsluráðgjafi frá Skólaskrifstofu Suðurlands stjórnaði dagskrá. Á milli upplestraratriða voru flutt tónlistaratriði en þar voru fremstir flokki nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga. Gaman var að sjá þær Margréti Thorarensen og Bryndísi Örnu Þórarinsdóttur úr 9. KH Vallaskóla leika þar lag. Foreldrafélag Grunnskólans í Hveragerði bauð upp á veglegar veitingar í hléi.
Nemendur sem taka þátt í upplestrarkeppninni koma allir úr 7. bekk. Rithöfundur og skáld keppninnar að þessu sinni voru þau Gunnar M. Magnússon og Unnur Benediktsdóttir Bjarklind. Alexandra Ásgeirsdóttir (8. MA í Vallaskóla og vinningshafi í upplestrarkeppninni í fyrra) kynnti Unni Benediktsdóttur á hátíðinni. Freydís Ösp Leifsdóttir, nemandi í Sunnulækjarskóla (og vinningshafi í upplestrarkeppninni í fyrra) kynnti Gunnar M. Magnússon.
Þátttakendur lásu upp texta eftir Gunnar (úr bókinni Bærinn á ströndinni) og í öðrum hluta keppninnar lásu þeir upp ljóð eftir Unni. Í þriðja og síðasta hluta keppninnar lásu nemendur upp ýmis ljóð að eigin vali.
Fulltrúar skólanna allra stóðu sig með mikilli prýði og eflaust hefur verið erfitt að vera dómari í slíkri keppni. Niðurstaðan var ánægjuleg fyrir Vallaskóla því Álfrún Björt Agnarsdóttir lenti í fyrsta sæti, Bjarki Þór Sævarsson í öðru sæti og Sesselja Sólveig Birgisdóttir lenti í því þriðja. Er þetta í fyrsta skipti í sögu keppninnar að vinningshafar komi allir frá sama skólanum. Því er við að bæta að þau koma öll úr sama bekknum, 7. LDS!
Formaður dómnefndar og fulltrúi Radda (samtök um vandaðan upplestur og framsögn), Sesselja Þórðardóttir, afhenti viðurkenningarskjöl. Veitt voru peningaverðlaun frá Sparisjóðnum á Selfossi og allir þátttakendur fengu bókaverðlaun frá Eddu miðlun.
Stóra upplestrarkeppnin hefur verið við líði frá árinu 1996 og dafnar með hverju árinu sem líður. Það er ljóst að þessi hátíð eykur áhuga á lestri og framsögn. Mikilvægi hennar felst ekki síst í því að allir nemendur í 7. bekk taka þátt í upphafi hverjar lestrarhátíðar í hverjum skóla fyrir sig og uppskeran getur því orðið ríkuleg fyrir íslenska tungu.
Fleiri myndir í albúmi undir ,,Myndefni“.